Hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:27:08 (4643)

2000-02-22 14:27:08# 125. lþ. 68.13 fundur 320. mál: #A hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um hættu af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut. Flm. eru auk þess sem hér stendur hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristján Pálsson og Sigríður Jóhannesdóttir. Þetta er ósköp stutt þáltill. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna hættu sem fylgir flutningum olíu og bensíns um Reykjanesbraut, einkum með hliðsjón af slysahættu á brautinni vegna álags á slitlag en ekki síður með tilliti til mengunarhættu, svo sem á vatnsbólum sveitarfélaga á Suðurnesjum, hættu á gróðurskemmdum og útblásturs flutningabifreiða.``

Herra forseti. Tilefni flutnings þessarar þáltill. er það mikla magn jarðefnaeldsneytis sem flutt er um Reykjanesbrautina á ári hverju og fram kemur í greinargerð með þáltill. Árið 1998 voru 136 milljón lítrar af flugvélabensíni og öðru jarðefnaeldsneyti fluttir frá Reykjavík og Hafnarfirði eftir Reykjanesbraut á Suðurnesin að mestu leyti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem flugvélabensín en einnig til Grindavíkur til þess að sinna fiskiskipaflotanum þar.

Nú hefur verið nokkuð um þetta fjallað að undanförnu. M.a. hefur heilbrigðisnefnd Suðurnesja fjallað um málið og lýst verulegum áhyggjum sínum af þessum miklu flutningum eftir Reykjanesbraut. Telur nefndin að vatnsból Suðurnesjamanna kunni að vera í verulegri hættu og hefur bent á það m.a. að ekki þurfi til þess nema eitt alvarlegt slys þar sem olía eða bensín leki því þá fari sá vökvi mjög auðveldlega í gegnum gljúpt hraunið og kunni að valda skaða á vatnsbólum Suðurnesjamanna til áratuga eða jafnvel nokkurra alda.

Markmið þessarar þáltill. er að fá hlutlaust mat Hollustuverndar sem er þar til gerð stofnun sem vinnur hlutlaust, á því hvort hér sé um raunverulega hættu að ræða þannig að hægt sé að bregðast við með einhverjum efnislegum rökum. Það má segja að umræðan hafi að sumu leyti verið rekin nokkuð á tilfinninganótum að undanförnu og er ekkert í sjálfu sér athugavert við það og ekkert óeðlilegt, en markmið tillögunnar er ekki síst að fá faglegt mat á þá meintu hættu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni hvað varðar vatnsból Suðurnesjamanna.

Í annan stað hefur verið á það bent að þungaflutningar valda meiri slysum. Á það hefur verið bent að allt að einn fullhlaðinn þungaflutningabíll valdi sliti vegar á við allt að 100 fólksbíla. Á árinu 1998 voru farnar rúmlega 3.000 ferðir eingöngu með olíu. Því má segja að með því að sú umferð hverfi af Reykjanesbraut, þá samsvari það í rauninni fækkun fólksbíla sem nemur um það bil 300 þúsund fólksbílum á ári. En það er vert, herra forseti, í þessu sambandi að vekja athygli á því að olíuflutningarnir einir og sér eru alls ekki einu þungaflutningarnir sem eiga sér stað um þessa umdeildu akbraut sem Reykjanesbrautin er. Miklir þungaflutningar eru í tengslum við fiskmarkaði, í tengslum við flugið, alþjóðaflugvöllinn á Keflavíkurflugvelli. Þarna fara fram malarflutningar og þannig má áfram telja. En þessir þungaflutningar eru líklega meginástæða þess að viðhald Reykjanesbrautarinnar sunnan Hafnarfjarðar eitt og sér kostar um 50 millj. kr. á ári hverju og þaðan eru komnar þessar illræmdu rásir sem taldar eru valdar að mörgum þeim hörmulegu slysum sem þar verða.

Í þriðja lagi, herra forseti, má benda á það að svo miklir þungaflutningar með svo mikið magn af olíu hjóta að valda mjög miklum útblæstri sem í rauninni má segja að sé ónauðsynlegur og vil ég skírskota þar til okkar skuldbindinga um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það leiðir auðvitað hugann að því hvort ekki sé rétt almennt að endurskoða þá stefnu sem hér hefur verið ríkjandi á undanförnum árum að beina þungaflutningum meira landleiðina í stað þess að fara sjóleiðina sem með gildum rökum má halda fram að dragi bæði úr sliti á vegum og ekki síður úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Herra forseti. Í fjórða lagi færa flutningsmenn sem rök að öll óþarfaumferð um fjölfarnar akbrautir veldur slysahættu og þannig má áfram telja.

Í fimmta lagi hefur verið á það bent að flutningur með svo viðkvæman farm sem þarna er nefndur stefnir að sjálfsögðu gróðri í hættu, ekki bara vatnsbólum heldur líka gróðri ef af alvarlegum slysum verður.

Nú má spyrja hver sé þá lausnin á þessu máli. Ég tek fram, herra forseti, að hér er ekki verið að koma með beinar tillögur um lausn heldur er verið að leggja áherslu á að fram fari faglegt mat á þessu þannig að hægt verði að bregðast við í framhaldinu. En á lausnir hefur verið bent, m.a. á samþykkt hafnaþings árið 1994 þar sem bent var á að ef svokallað jöfnunargjald varðandi olíuflutninga væri bundið við skipaflutninga, sem sagt að olía og bensín yrði flutt sjóleiðis og að höfn sem næst er notkunarstað, þá gæti það verið ákveðin lausn. Með öðrum orðum eru á Suðurnesjum hafnir m.a. í Grindavík og Helguvík. Þar eru ágætar hafnir. Sérstök olíuhöfn er í Grindavík sem gæti tekið við þessum miklu flutningum ef þeir kæmu sjóleiðis. Þannig mætti draga úr slysahættunni, draga úr mengunarhættu og draga úr útblæstri vegna gífurlegra flutninga með bílum á Reykjanesbrautinni, þ.e. með því að olían fari beint í Helguvík eða beint til Grindavíkur eftir því sem verkast vill.

Herra forseti. Ég legg að lokum áherslu á að við beinum þeirri ábendingu til umhvrh. að Hollustuvernd ríkisins verði látin vinna þetta faglega mat þannig að faglegar niðurstöður fáist í þessu og hægt verði að bregðast við samkvæmt þeim.

Herra forseti. Að svo mæltu mælist ég til þess að málinu verði vísað til hv. umhvn.