Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:01:31 (4650)

2000-02-22 15:01:31# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki heyrist mér þetta vera upphaf á mjög málefnalegri umræðu. Ef marka mátti mál síðasta ræðumanns gæti maður haldið að hér lægi fyrir frv. til laga um að áfengiskaupaaldur skyldi færður niður eða með öllu afnuminn.

Hins vegar langaði mig til að spyrja hv. þm. út í það hvernig honum líst á núverandi stöðu og hvort sú staða og hvort sú þróun sem orðið hefur hjá ÁTVR sé honum þá líka á móti skapi, þ.e. sú staða að ÁTVR hefur verið að fjölga mjög útsölustöðum sínum og eru þeir nú komnir víðast um landið. Vegna þess hversu dýr dreifingin er hefur ÁTVR gripið til þess að fara í samstarf við ýmiss konar verslanir, búsáhaldaverslanir, barnafataverslanir, veiðarfæraverslanir, fatahreinsanir, nánast allar tegundir verslana aðrar en matvöruverslanir. Liggur þetta eingöngu í því að ekki megi sýna áfengi við hliðina á mat eða er hv. þm. almennt á móti því að ÁTVR bjóði fram þjónustu svo víða sem raun ber vitni því að vissulega eykur aukin þjónusta aðgengi fólks að þessum drykkjum.