Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:09:54 (4654)

2000-02-22 15:09:54# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Hér er mælt fyrir tillögu um rýmkun á lögum um áfengiskaup hvað varðar sölustaði. Ég er í sama liði og íhaldsaflið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og satt að segja skil ég ekki í hvaða heimi hv. flutningsmenn lifa. Við Íslendingar stöndum upp fyrir haus í áfengisvanda, sérstaklega hvað varðar ofneyslu áfengis og drykkjusýki og reynum hvað við getum til að bregðast við þeim vanda. Það eina sem hefur dugað er aðhaldssöm stefna í sölu og það er einmitt það sem aðrar þjóðir eru líka að fara í, að þrengja reglur eftir því sem frekast er kostur.

Því verð ég að segja að mér finnst þetta vera vitlaus tillaga og ég vona að hún komi ekki úr nefnd. Hún stefnir í vitlausa átt. Hún miðar að því að auðvelda aðgang að áfengi en vegna aðhalds undanfarið er eitthvað minni heildarneysla hér en í mörgum nágrannalandanna.

Síðan segir í greinargerðinni að sérstaklega þurfi fólk alls staðar af landinu að hafa sömu möguleika til að nálgast áfengi. Mér finnst ýmis önnur réttindi mikilvægari fyrir bæði landsbyggðarfólk og höfuðborgarbúa varðandi það að menn sitji við sama borð en þetta og margt sem við eigum annað óunnið fyrr og líka með nefndum sem skipaðar væru fulltrúum allra þingflokka sem setu eiga á Alþingi eins og segir í till. til þál., með leyfi forseta.

Herra forseti. Í orðum fyrsta flutningsmanns, sem mælti fyrir tillögunni, fór hann aftur til bannáranna í leit að röksemdum og til stuðnings máli sínu. Ég verð að segja að það þarf ekki að fara neitt til baka í reynslu. Það er nóg að líta á umhverfið. Öll heilbrigð skynsemi segir að auðveldara aðgengi að áfengi er ávísun á meiri erfiðleika, meiri drykkju og ekki síst unglingadrykkju. Því vil ég segja að ég er alfarið á móti tillögunni. Ég vona að hún fái ekki öllu meiri framgang. Það er sjálfsagt að ræða þessi mál og fara yfir þau þannig en það er líka merkilegt að í öðru orðinu vilja flutningsmenn meira frelsi en í hinu að vísa fólki á ákveðnar tegundir áfengis og vill stýra því með verðinu.

Vilji fólk drekka frá sér ráð og rænu, lendi það að vilja sínum eða óvilja í vanda með drykkju sína, þá gerist það alveg eins með léttum og sterkum vínum. Það liggur í augum uppi. Það eina sem dugir er aðhaldssöm stefna og henni þarf að halda gegn sundrungaröflum Samfylkingarinnar.