Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:18:13 (4659)

2000-02-22 15:18:13# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Hjálmar Jónsson hafi gert rétt í því þegar hann vitnaði til þess að hann væri algerlega sammála skoðanabróður sínum í þessu máli hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vegna þess að hann bætti engu inn í þessa umræðu. Ég vil þó aðeins spyrja hv. þm. sem talaði um að mikil hætta væri í því fólgin að falla frá þeirri aðhaldssömu stefnu sem hefur verið rekin. Eins og við þekkjum mætavel þá hefur einvörðungu ÁTVR með sölu áfengra drykkja að gera að börum og veitingastöðum undanskildum.

Það kemur fram ef menn fara inn á heimasíðu www.atvr.is að söluaukning hefur orðið hjá fyrirtækinu um tæp 8% milli áranna 1998 og 1999. Þar kemur enn fremur fram að fyrirhugað er að opna fjögur til fimm útibú á næsta ári. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. hvort þessi söluaukning, þessi þjónustuaukning, ef svo má að orði komast, sé til þess fallin að reka aðhaldssama stefnu. Eða hvað átti hv. þm. við?

Í öðru lagi sagði hv. þm. að sá sem hér stendur hafi farið aftur til bannáranna til að sækja rök fyrir máli sínu. Staðreyndin er einfaldlega sú þegar menn rýna ofan í þessi mál að áfengisstefna íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda til margra ára sækir öll sín rök til sáttargjörðar milli þeirra sem ekki vildu heimila innflutning og sölu á áfengi og hinna sem það vildu gera. Það er þessi sátt sem í raun og veru hefur aldrei gengið upp því að hún er uppfull af tvískinnungi sem ég er að vitna til sem er enn þá áfengisstefna þjóðarinnar. Við erum í raun að leggja til að horfið verði frá þeirri stefnu til þess að viðurkenna að sátt sé um það í samfélaginu að selja og flytja inn áfengi aukinheldur að treysta einstaklingum og fólki til að fara með þessar veigar. Meðan við gerum það ekki munum við upplifa áfengismenningu eins og við höfum gert alla þessa öld meira og minna og hefur okkur verið okkur til lítils sóma.