Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:42:47 (4666)

2000-02-22 15:42:47# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Af lestri till. til þál. um endurskoðun á reglum um sölu áfengis var ekki hægt að lesa það sjónarmið sem kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, en það gleður mig að þau sjónarmið skuli vera ríkjandi meðal flm. því eins og ég benti á í ræðu minni eru unglingar að störfum í matvöruverslunum og oft eingöngu unglingar sem eru undir áfengiskaupalagaaldri og ég tel það vera ófært að haga sölu á áfengi við slíkar aðstæður. Þess vegna hef ég lagt til að heimila eigi sölu á áfengi af hvaða styrkleika sem er í sérstökum verslunum sem í rauninni mundu lúta að sömu reglum eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er með í sínum verslunum í dag, en að það sé eingöngu áfengi þar til sölu. Ég fagna því þeirri yfirlýsingu sem kom fram í ræðu hv. þm. áðan.