Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:49:43 (4671)

2000-02-22 15:49:43# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um endurskoðun reglna um sölu áfengis. Flutningsmaður vísaði tillögunni til efh.- og viðskn. Í mínum huga er þetta miklu frekar heilbrigðismál en viðskiptamál því að það atriði hvernig við högum sölu á áfengi og tóbaki í þjóðfélaginu hefur áhrif á heilsufar þjóðarinnar.

Eins og hér hefur komið fram eru fjórir þættir sem aðallega er miðað við varðandi forvarnir. Það eru aldursmörk þeirra sem leyfilegt er að selja áfengi og tóbak, aðgengi, auglýsingar og verðlag. Þessi þáltill. er hálfopin. Hún gengur út á það að skipa nefnd til að endurskoða reglur um sölu áfengis og heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum. Ég lýsi mig mótfallna þessari þáltill. vegna þess tilgangs að koma léttum vínum og bjór inn í matvöruverslanir.

Með því að koma léttum vínum og bjór inn í matvöruverslanir, þá segir það sig sjálft að verið er að ná því fram að hafa meira og betra aðgengi að þessum tegundum. Þar með erum við búin að brjóta niður eða veikja einn hlekk af fjórum í forvörnunum. Því hefur verið lýst hér hvernig ástandið er í mörgum verslunum. Þar eru ungmenni að afgreiða sem eru langt undir þessum aldursmörkum og þar sem þessi sömu ungmenni hafa ekki treyst sér til að segja nei við jafnaldra sína og látið undan þrýstingi að selja þeim tóbak, þá má alveg eins gera ráð fyrir að þessi sömu ungmenni muni láta undan þrýstingi að selja vinum sínum áfengi. Því miður er þetta svona.

Hvers vegna er maður svona mikið á móti því að bjór og létt vín séu frekar úti um allt í þjóðfélaginu sem þær tegundir sem við Íslendingar drekkum frekar en sterku vínin? Það er hægt að stýra drykkjusiðum okkar með öðru en að koma bjór og léttum vínum út í verslanirnar. Það þarf ekkert að biðja um skýrslur um hvernig ástandið er varðandi drykkju og fíkniefnaneyslu ungs fólks á Íslandi í dag. Því miður hefur aldurinn verið að færast stöðugt neðar. Unglingarnir byrja yngri og yngri að drekka og því miður liggur mér við að segja, var það sú ákvörðun okkar að leyfa bjór sem kom þessum málum á flot hjá okkur. Ég er ekki að mæla með því ástandi sem var hér áður að unglingar væru að drekka sterk vín, en við höfum þessa sýn til léttra vína og sérstaklega bjórsins að það sé ekki eins alvarlegt að drekka bjór og sterk vín og við erum miklu linari í afstöðu okkar gagnvart því áfengi heldur en öðru áfengi. Þess vegna höfum við horft fram hjá þeirri þróun, ekki tekið hana til okkar fyrr en niðurstöður kannana sýna að upphaf drykkju hjá ungu fólki er komið niður í fermingaraldur með þeirri afleiðingu sem getur leitt til neyslu á sterkari efnum. Það er staðreynd að ekkert ungmenni byrjar á neyslu ólöglegra efna án þess að vera búið að drekka áfengi áður eða nota tóbak. Ástandið hjá unga fólkinu í dag er alvarlegt og því ber okkur að mínu viti að nota þær aðferðir sem hafa forvarnagildi. Auðvitað er aðgengið ekki það eina sem við þurfum að gæta að. Við þurfum að halda utan um alla þættina.

Þegar ég segi að þetta sé heilbrigðisstefna frekar en viðskiptalegs eðlis, þá er í stefnuskrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hvatning til að draga úr aðgengi að áfengi og tóbaki og við höfum verið svo lánsöm að hafa slíkar takmarkanir.

Í þáltill. er líka vísað til þess að hægt sé að koma til móts við þarfir dreifbýlisins varðandi aðgengi að þessari vöru. ÁTVR hefur verið að bæta þjónustuna og komið víða upp sölustöðum ýmist sjálfstæðum eða komið þeim upp í samstarfi við annan rekstur sem er á staðnum og er það mjög mismunandi eftir byggðarlögum.

Þessa þjónustu væri auðvitað hægt að styrkja en ekki veikja eins og verið er að gera í dag með því að standa þannig að rekstri ÁTVR að fyrir dyrum stendur að fækka víntegundum sem ÁTVR býður upp á og þegar ÁTVR dregur úr þjónustu sinni þá hefur það auðvitað áhrif á viðhorf fólks og ánægju með þjónustu ÁTVR. Í mínum huga er markvisst verið að vinna að því að mylja undan ÁTVR þannig að upp komi sá þrýstingur að rekstur ÁTVR sé alveg ómögulegt fyrirkomulag sem þjóni ekki neinum og það þurfi að koma þessu út í einkareksturinn.

Það er hægt að bæta þjónustu ÁTVR með sérverslunum, með því að bæta þjónustuna í þeim útibúum sem þeir hafa og koma upp fleiri verslunum. Ég held að það væri leiðin til að bregaðst við kröfum um meira aðgengi.

Ég vil biðja hv. þm. að athuga það að matvöruverslun og matvöruverslun er ekki það sama. Sú þróun hefur orðið á bensínstöðvum hér, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar að það er orðin spurning hvort maður er að fara inn og kaupa sér bensín eða hvort maður er kominn inn í litla matvöruverslun. Hvar ætla menn þá að draga mörkin? Ætla þeir að kaupa bensín og eina kippu í leiðinni?