Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:58:00 (4672)

2000-02-22 15:58:00# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um till. til þál. um að heimila sölu á léttu víni og bjór í matvöruverslunum. Þessi tillaga gengur að mínu viti of skammt og eins og hv. þm. Ásta Möller rökstuddi áðan er hún á margan hátt ekki nægilega vel útfærð.

Íslenska þjóðin hefur lengi haft mjög skrýtna afstöðu til áfengis. Annars vegar er helgiljóma sveipað um vöruna, hún er seld í sérstökum musterum. Borgarar undir 20 ára aldri mega ekki kaupa vöruna og sumir kalla þessa vöru eiturlyf, enda áhrifin svipuð en samt er hún ekki bönnuð. Opinberir starfsmenn mega einir selja þessa vöru fyrir utan sérstaka vínveitingastaði. Þetta er útópían, draumsýnin, þetta er það lagaumhverfi sem við þykjumst sjá fyrir okkur. Raunveruleikinn er allt annar.

Neysla áfengis er mjög algeng og þjóðin virðist ekki geta skemmt sér af neinu tilefni nema hafa áfengi um hönd og alls staðar er haldið að fólki áfengi. Og ríkið telur sér sæma að nota þá vöru til að græða umtalsvert á. Drykkja unglinga allt niður í 14 ára aldur er allt of algeng eins og sést um nætur um helgar í Reykjavík. Það er því með ólíkindum að halda í núverandi bann og aldursmark á sama tíma og unglingar virðast geta keypt áfengi, landa, á hvaða tíma sólarhringsins sem er og alveg sérstaklega utan venjulegs opnunartíma verslana og þessi vara er meira að segja virðisaukaskattfrjáls. Þetta er raunveruleikinn. Og eins og oft áður þá er himinn og haf milli raunveruleika og þeirrar útópíu eða draumsýnar sem lagasetningin gengur út á.

Það kerfi sem við búum við í dag er afskaplega mikil forsjárhyggja. Ég hef stundum sagt að maður hafi það á tilfinningunni að maður verði aldrei fullorðinn á Íslandi. Það er alltaf eitthvert fólk sem ætlar að hafa vit á því hvað maður á að gera og hvað maður vill. Það er alveg ótrúlegt að mér skuli vera treyst til að fara til útlanda. Þar er hægt að kaupa áfengi í matvöruverslunum, t.d. í Þýskalandi. (GHall: Í mjólkurfernum.) Í mjólkurfernum, já. Það er því með ólíkindum að mér skuli vera treyst til að fara til útlanda og ég bíð bara eftir því að þetta forsjárhyggjufólk fari að banna mér það. Ég kynni að spillast þegar ég fer til útlanda. (Gripið fram í: Ekki þú.)

Hér hefur verið nefnt að í matvöruverslunum megi ekki treysta unglingum sem vinna við afgreiðslu af því að þeir eru undir áfengiskaupaaldri. Menn ganga sem sagt út frá því að þessir borgarar landsins muni fremja lögbrot. Gengið er bara út frá því að af því að fólk er undir áfengiskaupaaldri þá muni það selja áfengi. Þvílíkt vantraust. Ég treysti þessu unga fólki alveg nákvæmlega jafn vel til að selja ekki áfengi eins og því er treyst til að selja ekki tóbak. En það sem kannski vantar er eftirlit og viðurlög vantar við því að brjóta reglurnar. (Gripið fram í: Skerðing á frelsi.) (SJS: Á að setja unglinga í fangelsi?) Það mætti kannski svipta viðkomandi verslun leyfi til að selja viðkomandi vörur og dæma í fjársektir. Það er yfirleitt það sem dugar.

Það er svo merkilegt að mestu stuðningsmenn núverandi kerfis eru sennilega bruggarar og leynivínsalar því að þeir hafa hag af því að núverandi kerfi haldi áfram. (Gripið fram í: Þetta var nú útúrsnúningur.)

Það hefur verið reifað að taka upp netverslun með áfengi. Það er náttúrlega bara framhald af póstversluninni sem var hérna í gangi einu sinni. Þá getur komið upp sú skemmtilega staða að í matvöruverslun verði sett upp tölva þar sem fólk getur keypt áfengi gegnum netið. Hvað ætla menn að segja þá? Svo þegar þeir koma heim þá er búið að afhenda vöruna heima því að þjónustan verður náttúrlega alveg sérstaklega góð í þessari netverslun, (Gripið fram í: Maður drekkur ekki í gegnum netið.) það þarf ekki einu sinni að bera vöruna heim.

Herra forseti. Ég styð tillöguna sem lítið skref í átt til þess að Íslendingar verði fullorðnir.