Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:31:49 (4679)

2000-02-22 16:31:49# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, sanna í raun og veru það sem ég er búin að vera að tala um, að þáltill. sé ekki nægilega vönduð og hún feli í raun og veru ekki í sér þá hugsun eða þá hugmynd sem hv. flm. hafa viljað en eru að reyna að halda fram að hún hafi að geyma.

Mig langar, herra forseti, í framhaldi af þessu bannáratali og því tali sem hér á sér stað aðeins að varpa fram efasemdum um að sala á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum auki vínmenningarstig þjóðarinnar því að ég sé fyrir mér, herra forseti, að ef Hagkaup og Bónus eiga þá möguleika að selja bjór og léttvín, hvað sjáum við þá hér á markaðnum? Hagkaupsbjór, Bónushvítvín og Hagkaupsrauðvín. Við fáum ódýr vín, ódýran bjór, ekki gæðavöru, ekki ástríðufulla vínsala sem gefa okkur smökkun á tyllidögum eða segja okkur söguna á bak við miðana á rauðvínsflöskunum. Við fáum útþynnta og ég vil fullyrða, herra forseti, stórhættulega vínmenningu fyrir íslensku þjóðina.