Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:47:05 (4683)

2000-02-22 16:47:05# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessari ræðu hafi það einmitt endurspeglast að við erum einfaldlega ósammála um þá vegferð sem við teljum æskilegt að þessi þjóð haldi sig á, þ.e. hv. þm. telur að þessum málum sé best fyrir komið í ríkisverslun, þeim einum sé treystandi og ekki sé vogandi að opna þessa verslun með þeim hætti sem við erum náttúrlega að leggja til í tillögunni. Hv. þm. er einfaldlega þeirrar skoðunar að þetta sé vænlegasta leiðin.

Ég er allt annarrar skoðunar. Ég tel að það sé alveg óhætt að treysta einstaklingum og fyrirtækjum fyrir því að selja þessa vöru þannig að sómi sé að og ég tel eins að það sé mjög mikilvægt, af því að ég kom því ekki að í fyrra andsvari mínu, að við reynum að breyta þeirri áfengismenningu sem við höfum rekið og stundað og verið afleiðing áfengisstefnu með því að nota verðstýringu, þ.e. verðinu verði stýrt þannig að það verði á kostnað sterkra drykkja. Ég held að það sé til þess fallið að styðja og styrkja vínmenningu að vegur léttra vína og bjórs sé aukinn á kostnað sterkra vína. Hvernig menn framkvæma síðan þá stefnu er eitthvað sem ég tel að við þurfum að skoða frekar en ég trúi því ekki miðað við þá ræðu sem hv. þm. flutti að hann sé því andvígur að þetta mál sé skoðað í þaula í nefnd þar sem allir þingflokkar sem sæti eiga á Alþingi fá tækifæri til að tilnefna fulltrúa sína. Þar mundu sjónarmið hv. þm., sem eru algerlega andstæð mínum, fá að njóta sín eins og hver önnur.