Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:49:07 (4684)

2000-02-22 16:49:07# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki á móti skoðun á þessum málum og mundi ekki skorast undan því að taka þátt í slíku ef þar væri um algerlega hlutlaust upplegg að ræða en það er það ekki. Þessi skoðun á að miða að tilteknu markmiði, þ.e. að fara með létt vín og bjór inn í matvöruverslanir. Það eru líka gefnar upp forsendur í vangaveltum í greinargerð um verðlækkun og aðra slíka hluti sem ég er andvígur og að sjálfsögðu tek ég ekki þátt í því og styð ekki að sett sé í gang skoðun sem miðar að breytingum í þessum málum sem ég er á móti. Það liggur í hlutarins eðli. Tillagan er þannig úr garði gerð að hún býður ekki upp á stuðning þeirra sem vilja nálgast málið á hlutlægum og hlutlausum forsendum. Þeir eiga ekki annan kost en leggja til að hún verði felld því ég teldi það afturför og áfall ef tillaga í þessa átt sem stýrir málunum þannig yrði samþykkt. Ég mun gera mitt til þess að koma í veg fyrir að svo verði svo lengi sem ég heiti það sem ég heiti.

Mér finnst líka leiðinlegt þegar menn koma með þessar ræður um að þetta snúist um að menn treysti ekki neinum nema ríkinu. Þetta snýst ekki um traust og alls ekki um það hvort unglingum sem afgreiða í stórmörkuðum sé treystandi eða ekki. Það er að drepa umræðunni á dreif að stilla hlutunum þannig upp. Ég taldi mig vera að reyna að færa rök fyrir því að það væri hægt að koma við aðhaldi og það væri tryggara fyrirkomulag, t.d. hvað það varðar að unglingar undir lögaldri gætu ekki keypt áfengi eftirlitslaust, að hafa það í þeim skorðum sem það hefur verið. Ég tel að það fyrirkomulag sé í öllum aðalatriðum helt. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé mjög sjaldgæft að unglingar undir lögaldri geti keypt áfengi í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Ég held því fram og ég held að ég geti sannað þá fullyrðingu.

Spurningin er líka um það að treysta fólki, en þessar ræður má hafa um allar reglur af þessu tagi ef menn vilja fara út í þá þrætubókarlist. Af hverju treystum við ekki börnum til þess að keyra bíl? Af hverju treystum við ekki fólki til þess að bryðja e-töflur þó þær fengjust á öðru hverju götuhorni? Málið er nefnilega það að þegar komið er að ávanabindandi efnum af þessu tagi þá erum við komin inn á hið gráa svæði milli þess sem samfélagið leyfir reglulaust og eftirlitslaust og hins sem samfélagið bannar. Þetta er vara sem er þarna á milli, um hana eru settar strangar reglur og þannig á það líka að vera.