Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:59:40 (4686)

2000-02-22 16:59:40# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er mikill Hrunataktur í þeirri tillögu sem hér er rætt um. Hún er metnaðarlaus og ekki mjög spennandi að þurfa að fjalla um slík mál í sölum Alþingis á þeim nótum sem lagt er til.

[17:00]

Þessi tillaga gælir við þá hugsun sem telja má að baki fornrar vísu Bólu-Hjálmars, með leyfi forseta:

  • Oft hefur heimsins gálaust glys,
  • gert mér ama úr kæti, ---
  • hæg er leið til helvítis,
  • hallar undan fæti.
  • Nákvæmlega þetta er grunnurinn í öllu því er lýtur að víni og tóbaki. Það er allt til vansa, allt gálaust glys og því miður ósiður sem fylgir mannkyninu. Segja má að þar hafi hver sinn djöful að draga. Það að fjalla um það til lagasetningar og meðferðar á hv. Alþingi að auðvelda aðgang að þessum vímuefnum er auðvitað sorgleg staðreynd.

    Það er engin spurning um að vín og tóbak eru verstu óvinir mannsins og líklega mun næsti áratugur ekki líða án þess að einhver lönd muni banna sölu á tóbaki. Notkunin verður aldrei stöðvuð með laganna smíð en söluna er hægt að banna.

    Því miður finnst mér þessi tillögugerð gæla við þann takt sem við sjáum í sápuóperum sjónvarpsins, bandarísku myndunum sem gera allt svo auðvelt, elskulegt og ánægjulegt með sem bestu aðgengi að öllu og sérstaklega ósiðunum. Þessi tillaga elur á því að rækta snobb sem fylgir þeirri ómenningu sem vínið er. Margir hv. þm. nota orðið vínmenning sem er auðvitað rangyrði. Víni fylgir ekki menning og það eru engin dæmi þess í mannkynssögunni. (Gripið fram í.) Víni fylgir ekki menning, víni fylgir ómenning. Menn geta svo á hinn bóginn gert gott úr hlutunum, a.m.k. eins gott og hægt er.

    Unglingarnir eru ekki vandamálið eins og hér er rætt um. Unglingum er miklu betra að treysta en fullorðnu fólki samfélagsins. Hinir fullorðnu eru agalausari en unglingarnir í umhverfi okkar.

    Það er sjálfsblekking að ætla sér, eins og segir í tillögugerðinni, að hafa æskileg áhrif á neysluvenjur Íslendinga með breyttri verðlagningu á áfengi og aðgengi að léttum vínum og bjór. Þetta minnir ósköp einfaldlega á það þegar Íslendingar fyrir nokkrum árum tóku að sér að bjarga sel við strendur Hollands. Hann var síðna fluttur til Íslands, farið með hann til Grænlands og talið að hann væri komið á heimaslóð. Gott ef þetta var ekki rostungur, ég man ekki nákvæmlega hvort það var. Honum var sleppt við strönd Grænlands og þetta var kærleiksverk af hálfu Íslendinga. Hvernig brugðust Grænlendingar við? Þeir veiddu auðvitað dýrið daginn eftir og átu það.

    Hvað mundu Íslendingar gera ef verð á víni lækkaði í matvöruverslunum? Þeir drykkju bara meira og það er vegna þess að við búum við agaleysi sem við verðum að horfast í augu við. Hvar á byggðu bóli á jörðinni er t.d. meiri sóðaskapur í kvikmyndahúsum en á Íslandi. Þar þurfa menn að vera í klofháum stígvélum til að vaða draslið á gólfinu eftir tvær, þrjár bíómyndir á dag. Þetta er bara partur af okkar vandamáli sem við eigum ekki að opna fyrir allar dyr og láta flæða út um allt. Vín flæðir nóg um á Íslandi, herra forseti, þó það fari ekki að flæða um matvöruverslanirnar líka.

    Þegar menn tala um að gera gott úr hlutunum má auðvitað vitna í ýmsa texta. Menn hafa gaman af víni, það er allt annað mál. En það er ekki menning, samanber texta, með leyfi forseta, til að mynda:

  • Ef eitthvað liggur illa á þér
  • er ágætt ráð að drekka.
  • Að fá sér vín, að fá sér öl,
  • að fá sér nóg að drekka.
  • Því synda hefur ei sorgin lært
  • hún sekkur, bara sekkur,
  • á meðan gullna guðaveig
  • úr glasi þínu drekkur.
  • Eða vísan:

  • En sé þér góði glatt í hug
  • er gott og hollt að drekka.
  • Að fá sér vín, að fá sér öl,
  • að fá sér nóg að drekka.
  • Því gleðin flýtur ofan á
  • og alltaf hækkar, hækkar,
  • á meðan gullin guðaveig
  • úr glasi þínu lækkar.
  • (Gripið fram í: Segirðu svo að þetta sé ekki menning?) Þetta er ekki menning, þetta er lífsleikur sem menn reyna að gera eins gott úr og hægt er. En menning er það ekki og er rangnefni að kalla það því nafni.

    Það er ekki skrýtið þó að hv. 1. flm. þessarar tillögu sé á hlaupum með meiningar því að í stuttu máli er tillagan vond.

    Með tilkomu bjórs á Íslandi stórjókst notkun alkóhóls, sérstaklega meðal unglinga. Með bjórfylltum ísskápum og geymslum jókst drykkjuvandi barna niður í tíu og átta ára aldur. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því. Í kjölfarið kom síðan stóraukinn vandi vegna fíknilyfja, geðsjúkdóma og margs þess neikvæðasta sem við búum við í þjóðfélaginu og verðum að horfast í augu við.

    Þegar talað er um ástríðufulla vínsmakkara þá liggur ekkert að baki nema sölumennska. Við sem aldir erum upp í lúkörum fiskveiðiplássanna kaupum ekki þann stíl sem á að fylgja víninu. Við kaupum ekki að það sé af hinu jákvæða að reyna að kalla ómenninguna vínmenningu. Engu að síður er þetta hluti af lífsins leik. Það er allt annað mál. Með þeim málflutningi sem hér er settur upp í tillögu, er að mínu mati fyrst og fremst alið á enn meira agaleysi meðal Íslendinga. Með henni er verið að tefla okkar unga fólki á tæpasta vað. Það ætti ekki að vera hlutverk okkar hér í sölum Alþingis.