Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 17:08:04 (4687)

2000-02-22 17:08:04# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni ræddi ég einkum um að fjórar leiðir væru notaðar af stjórnvöldum til þess að stýra neyslu á áfengi. Það eru aldursmörk við kaup á áfengi, reglur um auglýsingar á áfengi, lög og reglur um aðgengi að vörunni og verðlagning á áfengi. Mig langaði í seinni ræðu minni aðeins að fjalla um einn þessara þátta, þ.e. aldursmörk við kaup á áfengi. Það hefur verið til umræðu í þinginu nú nýverið þar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir varpandi fram spurningu til hæstv. dómsmrh. varðandi niðurstöðu nefndar sem fengið hafði það verkefni að kanna hvort æskilegt væri að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. Það kom fram í umræðunni að þessi nefnd hefur ekki lokið störfum en þess var vænst að hún skilaði tillögum sínum fljótlega. Því má gera ráð fyrir að þetta komi aftur til kasta þingsins á næstunni.

Mig langaði aðeins að fjalla með nokkrum orðum um áfengiskaupaaldur. Það er sterkur straumur í þjóðfélaginu í átt að því að lækka mörkin úr 20 árum í 18 ár til samræmis við sjálfræðisaldurinn. Ég verð að viðurkenna að ég var þeirrar skoðunar, að það ætti að lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár, einmitt með þeim rökum að hann ætti að fylgja sjálfræðisaldri. En fyrir tveimur árum síðan var ég skipuð sem fulltrúi heilbrrn. í nefnd sem gera skyldi tillögur um hvernig stemma mætti stigu við ölvunarakstri. Við þá vinnu breyttist skoðun mín. Þessi tiltekna nefnd skoðaði m.a. tölur um áhrif lækkunar áfengiskaupaaldurs á slysatíðni. Þar kom í ljós að þar sem áfengiskaupaaldur hafði verið lækkaður úr 20 ára aldri í 18 ár varð marktæk fjölgun á alvarlegum slysum vegna ölvunaraksturs í þessum aldurshópi. Fjölgunin var um 18%. Banaslysum hjá öllum hópum fjölgaði um 17% en að sama skapi, í þeim löndum þar sem áfengiskaupaaldurinn hafði verið hækkaður úr 18 árum og upp í 20 ár, fækkaði aftur slysum í þessum aldurshópi um 18%. Banaslysum fækkaði um 24% og slysum með meiðslum um 31%. Við að skoða þessar tölur breyttist afstaða mín til þess að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. Sem stjórnmálamaður er ég ekki tilbúin að axla þá ábyrgð að alvarlegum slysum á ungu fólki fjölgi um fimmtung við að lækka áfengiskaupaaldur. Þá væri lækkun á áfengiskaupaaldri hér á landi úr 20 árum í 18 ár í andstöðu við stefnu stjórnvalda í áfengis- og fíkniefnamálum.

Ég gæti dregið fram fleiri rök gegn lækkun á áfengiskaupaaldri en ég er að hugsa um að geyma þau þar til síðar í umræðum á hinu háa Alþingi þegar það kemur hér til umfjöllunar.

Ég vil hins vegar bæta því við að öll ríki Bandaríkjanna miða áfengiskaupaaldur við 21 ár. Það má ekki selja fólki undir 21 árs aldri áfengi í Bandaríkjunum. Það kom mér mjög á óvart er ég komst að þessu með því að fara í gegnum þau gögn sem ég hafði. Eftir því sem ég kemst næst er áfengiskaupaaldur í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð 18 ár fyrir létt vín og bjór en 20 ár fyrir sterkt áfengi. Hins vegar er áfengiskaupaaldurinn í Danmörku 15 ár, enda drekka Danir mesta magn áfengis allra Norðurlandabúa og er ástand þeirra mála hjá þeim ekki til fyrirmyndar.

Í ágætri bók sem gefin hefur verið út af Fræðslumiðstöð í fíknivörnum 1998 sem heitir Áfengis- og fíkniefnamál á Íslandi, þróun og staða, kemur einmitt fram hve mikil neysla er á áfengi í ýmsum Evrópulöndum. Neyslan í Danmörku er 10 lítrar af hreinum vínanda á hvern íbúa árið 1995 meðan hún var 3,5 á Íslandi. Mig langar til þess að leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þm. Árna Johnsen áðan þar sem hann talaði um að áfengisneysla á Íslandi hefði aukist við tilkomu bjórsins. Það er ekki rétt. Bjórinn var leyfður, ef ég man rétt, árið 1989. Þá var neysla á Íslandi 4,1 lítri af hreinum vínanda, 1995 er hann kominn niður í 3,5 lítra. Neysla á áfengi hér á landi hefur því minnkað í þessum mælikvarða. En hins vegar er það svo að neysla á sterku áfengi er einna mest hér á landi af öllum Evrópulöndum. Þar erum við í hópi með Rússlandi og fleiri löndum þar sem mikið áfengi er drukkið. Það má rekja til þeirrar stefnu sem var hérna til margra ára, að eingöngu væri leyft að selja sterkt áfengi og létt vín en bjór var bannvara árum saman. Við þurfum því virkilega að taka okkur á til að breyta hugsunarhætti sem er nokkuð viðvarandi hér á landi varðandi umgengni við sterkt áfengi.

Virðulegi forseti. Svo að ég dragi saman niðurstöðu mína um þá þáltill. sem verið hefur til umfjöllunar í dag þá styð ég þá meginhugsun sem fram kemur í henni, þ.e. að skipa nefnd sem vinni að endurskoðun reglna um sölu áfengis. Hins vegar er ég, eins og áður hefur komið fram mótfallin því að tengja tillöguna því að heimila sölu léttra vína og bjórs í matvöruverslunum. Ég hef fært rök fyrir því að ekki eigi að selja áfengi í matvöruverslunum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að afnema eigi einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á öllu áfengi og heimila ætti einkaaðilum að setja upp sérverslanir með létt vín, bjór og sterkt áfengi sem háðar yrðu sérstöku leyfi og tilteknum skilyrðum.