Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 17:23:36 (4689)

2000-02-22 17:23:36# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur frammi og er til umræðu á hv. Alþingi um endurskoðun reglna um sölu áfengis er ekki flokkspólitískt mál ef svo má að orði komast. Það liggur ekki eftir flokkspólitískum línum hvort menn eru á móti eða með, ekki frekar en með bjórnum á sínum tíma þar sem flokkspólitísk bönd riðluðust. Ég tel þessa tillögu hins vegar ekki tímabæra, að nú, árið 2000, sé ekki tímabært að ræða þessi mál. Ég hef ekkert á móti því að hv. þingmenn, samflokksmenn mínir, flytji þessa tillögu og hún sé rædd, en tek skýrt fram að ég er efnislega á móti því sem þarna kemur fram. Ég er á móti því að létt vín og bjór séu seld í matsöluverslunum. En það er ekkert víst að ég verði á móti því eftir fimm eða tíu ár þegar tíminn líður fram, það á eftir að koma ljós.

Þegar þetta kom til umræðu og mér var boðið að vera meðflutningsmaður að þessari tillögu hafði ég slysast inn í Nýkaup í Kringlunni í Reykjavík deginum áður og Nýkaup var þá búið að opna vísi að áfengisbúð í matvöruversluninni, þó að sett hafi verið fyrir hana eitthvert hænsnanet. Menn gátu komið og kíkt þar inn og horft á þær guðaveigar sem þar voru en Nýkaupsmenn gerðu meira. Þeir beittu sér fyrir skoðanakönnun um málið. Þar á borðum voru tvær Machintosh-tölvur þar sem spurt var hvort aðilar væru hlynntir eða andvígir því að seld væru létt vín og bjór í matvöruverslunum á Íslandi og menn gátu klikkað þar á og sagt já eða nei. Við þessar tölvur stóð hópur unglinga, ég ímynda mér svona 13--14 ára og klikkuðu á já í tíma og ótíma, enda kom niðurstaðan ekki á óvart. 75 eða 80% þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru hlynnt því að bjór og létt vín yrðu seld í matvöruverslunum á Íslandi. Það voru því ábyggilega í töluvert miklum mæli börn og unglingar sem tóku þátt í þessari skoðanakönnun Nýkaupsmanna sem vildu þannig útvíkka starfsemi sína, enda var það líka svo þegar maður fór með vörurnar að kassanum að þar voru, ég segi ekki börn en 13--14 ára unglingar við afgreiðslustörf, enda fást sennilega ekki aðrir en unglingar í skóla til að sitja við þessa kassa á því litla kaupi sem örugglega er greitt fyrir þau störf.

Þetta vildi ég láta koma fram hvað afstöðu mína varðar en af því að ég er að ræða þetta hér og áfengisverslunina, þá vil ég líka taka fram að ég held að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé nokkuð vel rekið fyrirtæki og það er heldur ekki tímabært að breyta því eins og nokkrir þingmenn hafa fjallað um að gefa þetta frjálst og leggja ÁTVR niður. Ég er ekki sammála því. Ég er hins vegar sammála því að kúnninn eigi að eiga betra aðgengi að þessum verslunum fyrir þá sem þar vilja koma að og nefni ég þá sérstaklega landsbyggðina þar sem þessi starfsemi er ekki mjög víða en er þó á nokkrum stöðum, og á sumum stöðum er verið að auka þessa starfsemi og er þá, því miður vil ég segja, sett saman við ýmiss konar aðra starfsemi. Út af fyrir sig er kannski allt í lagi að hafa þetta í einhverri skipaverslun eða skrúfuverslunum, en mér finnst frekar ógeðfellt að horfa á þetta við hliðina á barnafataverslun. Ég mundi sem sagt vilja að foreldrar sem fara með börnin sín út að versla séu ekki í þessum verslunarerindum í leiðinni.

Ég tel hins vegar, herra forseti, að ÁTVR megi aðeins skoða þessi mál. Opnunartíminn má vera meira í takt við það sem er annars staðar og þá kannski sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og reyndar úti á landi líka vegna þess að annars verða þær raddir háværari að taka þetta út úr þeim verslunum og sé betur komið í einhverjum klukkubúðum eða stórmörkuðum eða hvað þetta allt saman heitir.

Þó að ég telji mig ekkert mjög íhaldssaman eða þess háttar, ég tel mig vera frekar frjálslyndan mann, þá held ég að það sé líka hluti af þeirri stefnu, og ég er sammála henni, að vínauglýsingar séu bannaðar. Ég held að það sé hluti af þeirri stefnu ásamt því sem er hluti af þeirri vínmenningu sem er í landinu eða stefnu hvort sem það eru létt vín, sterk vín eða bjór, að verði er haldið töluvert háu og það er hluti af þeirri verðlagningu og áfengisstefnu sem hér er tíðkuð.

Hér hefur líka komið fram og kemur einnig fram í tillögunni að athuga með breytt aldursmörk við verslun á áfengi. Auðvitað er það eins og hér hefur komið fram mjög mikill tvískinnungur að 18 ára unglingur geti farið inn á vínveitingastað en megi ekki versla þar. Ég ætla ekki endilega að tjá mig um það í lokin, herra forseti, hvað það varðar en ég vil taka það skýrt fram að hér er ekki um flokkspólitískt mál að ræða. Mér finnst ekkert athugavert við það að flm. flytji þessa tillögu, en ég er á móti henni vegna þess sem ég hef áður sagt.