Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:00:23 (4694)

2000-02-22 18:00:23# 125. lþ. 68.6 fundur 174. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:00]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og aftur hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, eða það mátti skilja á orðum þeirra, að það stæði til að leggja niður Barnahús. Ég vísa í utandagskrárumræður sem voru fyrir jólin. Þar kom skýrt fram hjá dómsmrh. að ekki stæði beint til að leggja niður Barnahús. Ég hef í rauninni ekki skilið þá umræðu sem hefur verið upp á síðkastið þar sem þessu hefur verið haldið fram. Það sem hefur gerst er að boðið hefur verið upp á aðstöðu í dómskerfinu til þess að yfirheyra börn ef dómarar telja ástæðu til þess að yfirheyra börn í dómhúsum en ekki í Barnahúsi og þá rökstyðja þeir slíka ákvörðun. En þessi misskilningur hefur verið í gangi og umræðan sem varð um Barnahúsið fyrir jól kom ekki frá dómsmrh. Það féllu orð frá félmrh. varðandi Barnahúsið og ég tel að sú hræðsla sem hefur komið fram eigi ekki við rök að styðjast.