Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:13:17 (4699)

2000-02-22 18:13:17# 125. lþ. 68.6 fundur 174. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég kem í ræðustól til þess að styðja þessa till. til þál. um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota. Þessi þáltill. tekur til allra þolenda kynferðisafbrota en þó er sérstaklega talað um börn og unglinga. Það er orðið ljóst, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér áðan, að það er ekki langt síðan við viðurkenndum og í raun uppgötvuðum að þetta væri til á Íslandi. Þetta var eitthvað sem gerðist í gamla daga. Maður las um þessi sifjaspell og vissi varla hvað orðið þýddi. Við lifðum í fílabeinsturni. Við lásum um það hvað var að gerast á hinum Norðurlöndunum, en það var ekki svona hjá okkur. En því miður erum við nákvæmlega eins. Nú erum við búin að viðurkenna að kynferðisglæpir eru til hjá okkur og því verðum við að hafa lagarammann í samræmi við það. Kerfi til að taka á glæpnum var ekki til staðar af því að glæpurinn var ekki til. Við þurfum að vanda okkur mjög í þessu máli.

Kynferðisglæpir, sérstaklega kynferðisglæpir gegn börnum, eru viðbjóðslegustu glæpir sem mannskepnan getur framið og kann hún nú ýmislegt fyrir sé í því að fremja viðbjóðslega hluti. Fyrir alla sem lenda í þessum málum er þetta mikið áfall, ekki bara fyrir barnið sem lifir við þetta alla ævi og skemmir líf þess og eitrar alveg til æviloka, heldur ekki síður fyrir móðurina, föðurinn, alla aðstandendur sem koma að þessu. Fyrir fjölskylduna alla er þetta mikið áfall. Það er erfitt að viðurkenna þetta, kæra það og fara með það rétta leið. Þess vegna er svo mikilvægt að allt sem snýr að þessu sé þolendum hliðhollt, getur maður sagt, að það verndi þá sem verða fyrir því alveg frá því að glæpurinn er tilkynntur og þangað til dæmt er í málinu.

Það hefur komið fram í máli þeirra sem hafa talað að þetta eru erfið mál, en þó eru þau enn þá erfiðari í dreifbýlinu en hér í þéttbýlinu þar sem barnaverndarnefndir eða þeir sem koma að þessu eru miklu nærri en hér í fjölmenninu og þar sem erfitt er að fara með þessi mál öðruvísi en að jafnvel hálf sveitin viti af því og að búið sé að dæma fyrir fram. Þetta kerfi frá kæru til dómstóla þarf því að vera vel byggt upp og ekki síst með tilliti til þolenda úti á landi því að þar er það enn þá viðkvæmara að fara af stað með þetta, að sitja ekki með þetta innibyrgt alla ævi.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi Barnahúsið og hvet til þess að aftur verði farið yfir þær vinnureglur sem hafa verið teknar upp og þær skoðaðar með tilliti til þess að Barnahúsið verði styrkt, að þessi sérhæfða stofnun verði það sem henni var ætlað að vera og vinni það mikilsverða starf sem er þannig að litið er til okkar sem nokkurrar fyrirmyndar.