Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:17:25 (4700)

2000-02-22 18:17:25# 125. lþ. 68.6 fundur 174. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa talað og lýst stuðningi við þetta mál. Ég vænti þess eins og fram kom í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að sátt muni nást um það, enda er málið þverpólitískt og þess eðlis að allir ættu að geta sammælst um að styðja það að þessi mál séu skoðuð vegna þess að við höfum það mikið fyrir framan okkur að það eru ýmsar brotalamir í þessu sem þarf að skoða. Og það er sannarlega rétt sem fram kom hjá hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnu Halldórsdóttur, að það er stór smánarblettur á íslensku samfélagi hvernig staða þessara mála er.

Ég vil líka nefna það hér af því að farið var inn á afstöðu dómsmrh. til Barnahússins og hv. þm. Ásta Möller nefndi það og þá utandagskrárumræðu sem fór fram fyrir jólin um þetta mál, að málflutningur hæstv. dómsmrh. gaf ekki tilefni til þess að ætla að hún mundi leggja sitt af mörkum til þess að breyting yrði á þeirri stöðu sem upp var komin að málin væru afgreidd í dómhúsi. Frá miðju síðasta ári fengu einungis þrjú mál meðferð í Barnahúsinu. Af 30 málum fóru þrjú til Barnahúss en önnur voru öll afgreidd í dómhúsi.

Málflutningur hæstv. ráðherra gekk út á að reyna að sannfæra þingheim um hve aðstaðan sem komin er í dómhúsi væri góð. Ég er með ræðu hæstv. dómsmrh. fyrir framan mig þar sem hún er einmitt að lýsa þessum sérútbúnu herbergjum sem búið er að koma upp í þessu skyni. Hæstv. ráðherra orðaði það svo í þessari ræðu, með leyfi forseta:

,,Það vekur hins vegar furðu mína að tilvist þess [þ.e. Barnahússins] skuli velta á því samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum að skýrslutökur af ungum börnum í meintum kynferðisbrotamálum fari ávallt þar fram.``

Það var því ekkert sem gaf sérstakt tilefni til þess að hún mundi beita sér fyrir því að Barnahúsinu yrði ekki lokað. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að ekkert virðist vera að gerast í þessum efnum þessa dagana og samkomulag sem menn héldu að hugsanlega væri hægt að ná í þessu máli milli dómaranna og Barnahússins um að yngri börnin fengju meðferð í Barnahúsi virðist ekki vera uppi á borðinu.

Því sem þarf að halda til haga í þessu máli er að hæstv. dómsmrh. hefur lykilinn að því að hægt sé að höggva á þennan hnút. Frumkvæði hennar, t.d. lagabreyting ef nauðsynleg er, mundi auðvitað höggva á þennan hnút sem þarna er kominn. Tilmæli hennar til dómstólaráðsins um það t.d. að yngri börnin fengju meðferð í Barnahúsinu mundu örugglega vega þungt í þessu máli. En ég veit ekki til þess að hæstv. dómsmrh. hafi beitt sér í þessu máli, því miður. Ég hefði gjarnan óskað eftir því að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Málið hefur oft verið á dagskrá einmitt með tilliti til þess að hún gæti tekið þátt í þessari umræðu. En lengur var ekki beðið. Viðbrögð hæstv. dómsmrh. hafa því valdið mér nokkrum vonbrigðum.

Eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Austurl., Þuríðar Backman, þá er t.d. Barnahúsið mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina vegna þess að sérfræðingar úr Barnahúsinu fara út á land einmitt þegar svona mál koma upp þar. Það er svo sannarlega hægt að taka undir það að þessi mál geta verið mjög erfið úti á landi þar sem fámenni er og auðvitað er lykilatriði t.d. í því sambandi, fyrir utan það að Barnahúsinu verði haldið opnu áfram og það fái að sinna sínu hlutverki, að stækka barnaverndarnefndirnar vegna þess að fjöldi þessara smáu barnaverndarnefnda er ekki til þess fallinn að leiða slík mál farsællega til lykta. Sem betur fer hefur tölvert verið tekið á í því að stækka og efla barnaverndarnefndirnar.

Varðandi Barnahúsið sem hér hefur mikið verið rætt um þá er þetta þannig að rannsókn máls fyrir réttarvörslukerfið og barnayfirvöld og hins vegar stuðningur og meðferð sem veitt er í kjölfarið fer fram í Barnahúsinu. Það sem mjög skorti á áður en það var opnað voru meðferðarúrræði en það hefur að verulegu leyti verið tvinnað saman í Barnahúsinu vegna þess að þar er líka veitt ákveðin meðferð. Núna er hætta á því að ákveðin heildarsýn tapist á þessum málum sem opnaðist með Barnahúsinu eftir að farið var að taka skýrslu í dómhúsi frá miðju síðasta ári. Þess vegna er ekki skrýtið, herra forseti, að hér hafi hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýst áhyggjum sínum af stöðu Barnahússins.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég tel mikilvægt að því verði fylgt eftir að allshn. taki upp þetta mál. Ég veit ekki til þess að hér sé staddur neinn sem er í hv. allshn. þannig að ég tel mikilvægt að því verði komið til skila til nefndarinnar og hún fari yfir þetta lagaákvæði og hvort það þurfi að breyta því.

Lögin ganga efnislega út á það að dómari ber ábyrgð á skýrslutöku af börnum vegna kynferðisbrota í stað lögreglu áður. Það hefur verið túlkað þannig af dómurunum sjálfum að skýrslutakan fari fram þar og því þarf að breyta.

Herra forseti. Ég vona að málið fái farsælar lyktir á þinginu og þakka þær góðu umræður sem hafa orðið um þetta mikilvæga mál.