Réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:42:14 (4704)

2000-02-22 18:42:14# 125. lþ. 68.9 fundur 259. mál: #A réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er að mínu viti hreyft mjög þörfu máli sem við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt fram. Hér er um að ræða stöðu þess fólks sem hefur ekki öðlast lífeyrisrétt úr lífeyrissjóði svo nokkru nemi. Þarna er um að hópa í þjóðfélaginu sem voru með lágar tekjur og greiddu þar af leiðandi lítið í lífeyrissjóði. Þetta er sú kynslóð sem lagði einna mest af mörkum við að byggja upp nútímaþjóðfélagið Ísland. Hinn vinnandi maður hafði tiltölulega lágar tekjur, greiddi þar af leiðandi lítið í lífeyrissjóði og aflaði sér lítilla lífeyrisréttinda.

Í þessum hópi eru einnig t.d. eldri sjómenn sem þrátt fyrir sæmilegar tekjur greiddu aðeins af kauptryggingu í lífeyrissjóði, kauptryggingu sem jafnan var afar lág upphæð. Sjómenn gátu verið búnir að greiða í lífeyrissjóð í 14 ár, frá 1970--1984 og verið miklir aflaskipstjórar alla sína tíð. Mér sérstaklega hugleikið eitt dæmi af manni norður í Ólafsfirði sem verið hafði síldarskipstjóri á frægum aflaskipum alla sína tíð og síðar togaraskipstjóri á Sigurbjörgu frá Ólafsfirði. Hann átti rétt á lífeyri árið 1984, þegar hann veiktist og þurfti að fara í land, en réttur hans var innan við 5 þús. kr. í lífeyri. Ekki hafði hann haft lágar tekjum. Greiðslur sjómanna voru einfaldlega af kauptryggingunni sem var mjög lágur tekjugrunnur og eingöngu ætlaðar til að draga fram lífið í algerum nauðþurftum. Það er m.a. þessi hópur, eldri menn, áttræðir, sem eru í dag mjög illa settir í þessu kerfi, lifa á ellilífeyrinum einum saman en fátt annað kemur til og lítil réttindi eru í lífeyrissjóði.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins lögðum til að til að fjármagna þetta við afgreiðslu síðustu fjárlaga yrði gripið til þess að ráðast á vegafé. Þó var okkur ekki kært að leggja það til, að skera niður vegafé landsmanna til viðhalds og nýbyggingar. Eins og margoft hefur komið fram hjá okkur í þessum ræðustól þá teljum við það eina af meginstoðum byggðar í landinu, að efla samgöngur. En við teljum þetta hins vegar svo mikilvægt mál að jafnvel verði að fara inn í vegaféð til þess að koma því í framkvæmd.

Í blaðinu Vesturland var þetta viðhorf okkar gert að sérstöku umtalsefni, þ.e. í jólablaði Vesturlands. Þess sérstaklega getið að Frjálslyndi flokkurinn hefði lagt til niðurskurð á viðhalds- og nýbyggingarfé til vega. Það var auðvitað ekkert getið um það í þessari stuttu frétt í Vesturlandi til hvers við ætluðum að nota þá peninga, eingöngu sagt að við ætluðum að skera niður vegafé. Ekki var minnst á að með því ætti að fjármagna lífeyrisbætur til þeirra sem stæðu hvað verst í þessu kerfi og að hér værum við í raun að gæta hagsmuna þeirra sem oft eru sagðir vera kynslóðin sem byggði upp landið, kynslóðin sem gerði Ísland að því sem það er í dag.

Ég ætla að segja það sem lokaorð í þessari umræðu að ef til þess kemur að skera þurfi niður vegafé til að koma þessu í framkvæmd þá mun ég áfram styðja það, alveg hiklaust. Ég veit að Vestfirðingar sem aðrir eru tilbúnir að keyra nokkur ár í viðbót á 10 km lengri malarvegi. Þeir hafa gert það í 20--30 ár og þeir lifa það örugglega af inn í framtíðina. Ég held að Austfirðingar og aðrir mundu líka sætta sig við að keyra 10 km lengra á ómalbikuðum vegi til að lagfæra stöðu þessa hóps, í eitt eða tvö ár.