Réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:49:52 (4706)

2000-02-22 18:49:52# 125. lþ. 68.9 fundur 259. mál: #A réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs að nýju í kjölfar umræðunnar eftir fyrri ræðu mína og vil ítreka mikilvægi þeirrar vinnu sem lagt er til að farið verði í. Sérstaklega vil ég nú gera að umtalsefni stöðu aldraðra sem búa við fátækt og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á áðan í máli sínu.

Það á ekki bara við um sjómenn. Ég veit að víða er staðan mjög slæm hjá öldruðum sjómönnum vegna þess hve lítinn rétt þeir eiga í lífeyrissjóðum. En það á líka við um bændur. Mjög margir bændur standa verulega illa þegar þeir eru komnir á ellilífeyrisaldur og einnig aldraðar konur sem hafa unnið allan sinn ævidag í láglaunastörfum. Þær eiga mjög lítinn rétt í lífeyrissjóðum. Þetta fólk sem á lítinn rétt í lífeyrissjóðum á mjög erfitt með að framfleyta sér út mánuðinn á þeim kjörum sem því er boðið upp á. Ég vil bara minna á að lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingunum eru undir 50 þús. kr. ef menn búa með öðrum. Þetta eru ekki nema 48 þús. kr. Ef menn eru síðan með kannski 10 þús. kr. úr lífeyrissjóðum eins og margir hafa sem hafa leitað til mín þá eru þetta nánast engar upphæðir sem fólki er ætlað að lifa á, sérstaklega ef það á ekki eigið húsnæði. Þarna er því víða pottur brotinn, sérstaklega hjá þessum hópum.

Ég vil einnig nefna öryrkjana. 43% öryrkja lifa á almannatryggingunum einum og menn geta séð hvað það þýðir fyrir lífeyrisþega í sambúð eða hjónabandi að hafa innan við 50 þús. kr. til að framfleyta sér. Þetta rekur fólk út í skilnað. Þetta rekur fólk út í að eiga ekki fjölskyldu, að búa eitt til þess bara að geta haft í sig og á. Það er ekki aðeins að þetta bitni á lífeyrisþegunum sjálfum heldur bitnar þetta á allri fjölskyldunni. Þetta bitnar á börnunum. Það bitnar á þeirra nánustu hvernig búið er að þeim þannig að í mörg horn er að líta í þessum efnum.

Mig langar aðeins til þess að bæta við vegna þess að ég kom því ekki að í fyrri ræðu minni. Varðandi afnám tekjutengingar við tekjur maka hefur það viljað brenna við í umræðu á þinginu að stjórnarliðar hafa verið að telja fólki trú um að einhverjir muni koma illa út úr þessu afnámi. Það er rangt. Við gerum ráð fyrir því að þó svo bannað verði að tengja tekjur maka við tekjutryggingu lífeyrisþega, þá geti menn áfram nýtt frítekjumark hvors annars, þ.e. að það sé millifæranlegt frítekjumark. Þeir sem eru á því að menn geti notað persónufrádrátt hvors annars eins og stjórnarliðar hafa lagt til og var einmitt til umræðu í þinginu í vetur, ættu að geta skilið það að sömuleiðis ættu hjón að geta haft millifæranlegt frítekjumark þannig að þau geti notað sér frítekjumark hvors annars. Það eru því algjörar rangfærslur að halda því fram. Það er verst að hér skuli ekki vera nokkur maður úr stjórnarliðinu. Hér situr ekki nokkur maður í þingsalnum nema þá virðulegur forseti sem hlustar grannt á málflutninginn. Bæði hv. þingmenn Sjálfstfl. og ekki síður hv. þingmenn Framsfl. hafa haldið þessu fram sem er algjör fásinna og vonandi mun hæstv. forseti koma því til skila til sinna manna að það er algjör rangfærsla að nokkur muni tapa á þessu. Ég minni á það sem kom reyndar fram í fjárlagaumræðunni og hefur einnig komið fram í þessari umræðu að kostnaður við að leiðrétta þetta misrétti er ekki nema 360 millj. kr. samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins þannig að þetta eru engar stórupphæðir. En sá sparnaður að setja ekki 360 millj. í þetta veldur mjög miklum skaða úti í samfélaginu. Þetta er að leysa upp fjölskyldur. Þetta er að fara illa með hjónabönd og sambúð og þetta er að fara illa með börn sem ekki geta tekið fullan þátt í samfélaginu vegna þess að foreldrar þeirra hafa misst starfsorkuna og starfsgetuna og geta þess vegna ekki leyft sér að bjóða þeim upp á sömu þátttöku í félagslífi og í samfélaginu og aðrir foreldrar geta.

Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram hér að það er réttlætismál að greiðslur til lífeyrisþega og ekki síst öryrkjanna skuli vera óháðar tekjum maka. Þannig styðjum við best við bakið á því fólki sem verst er statt í samfélaginu og einnig við þá grunneiningu þjóðfélagsins sem fjölskyldan er.

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að bæta þessu við þar sem ég hafði ekki tíma til að koma því að áður. Auðvitað gætum við rætt þessi mál lengi vel en ég sé að klukkan er að verða sjö og enn eru nokkrir á mælendaskrá og eitt mál til viðbótar. Ég ætla því ekki að lengja þessa umræðu frekar. En ég endurtek að ég tel fyllstu ástæðu til þess að við afgreiðum þetta mál úr hv. heilbr.- og trn. og málið komi til afgreiðslu í þinginu síðar á þessum vetri.