Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:14:01 (4710)

2000-02-22 19:14:01# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er vissulega tilefni til að ræða ítrekað stöðuna á landsbyggðinni og því miður tengist umræðan um atvinnulíf á landsbyggðinni allt of oft stórum, ofboðslega dýrum framkvæmdum eins og jarðgöngum, vegamálum og stóriðju. Vissulega eru þetta mikilvægir þættir og geta breytt miklu fyrir byggðarlög. En það er líka alveg ljóst að úrbætur í þeim þáttum duga ekki einar sér.

[19:15]

Hér hefur verið komið inn á hvað gert hefur verið í málefnum kvenna og nefndi framsögumaður sérstaklega Jóhönnusjóðinn svokallaða. Það er ástæða til að skoða hve svo lítill sjóður hafði mikið að segja fyrir konur, fyrst á landsbyggðinni og seinna líka fyrir konur í þéttbýlinu sunnan lands. Það sýndi sig að konur eru mjög hugmyndaríkar. Þær reyndust tilbúnar að leita nýrra leiða í atvinnusköpun en í erfiðri stöðu voru þær ekki tilbúnar að veðsetja heimili sín. Þess vegna reyndist lágt fjárframlag oft gera þeim kleift að lyfta grettistaki til breytinga í atvinnumálum sínum. Það hefur komið mér á óvart að ekki skyldi í ríkari mæli byggt á þessari reynslu.

Ég vil líka nefna að áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum var búið að koma upp vísi að áhættusjóði á vegum félmrn., iðn.- og viðskrn. og Reykjavíkurborgar. Hann var heldur ekki stór en honum var ætlað að eflast hægt og sígandi. Markmiðið með honum var að veita stuðning við smáfyrirtæki af þeirri tegund sem konur hafa oft stofnað til í atvinnuleysi í dreifbýli.

Hvað dreifbýlið sjálft og sveitirnar varðar þá hefur það reynst svo að í ríkari mæli hefur það orðið þannig að bú bera aðeins einn starfsmann. Annað hjóna verður að leita út fyrir búið og í næsta þéttbýlisstað. Oft er langt að fara og ekki möguleiki á að sækja störf fjarri búinu. Þess vegna hafa margar sveitakonur brugðið á það ráð að vera með handverk af ýmsum toga, t.d. úr íslensku efni, skinni, beinum, hornum o.s.frv. Oft er það undurfallegt handverk sem þessar konur eru að framleiða og tengist ferðaþjónustu á viðkomandi svæðum.

Nú er það svo að heimilt er að framleiða án þess að greiða virðisaukaskatt að einhverri upphæð sem er, ef ég man rétt, eitthvað um 180 þús. kr. Það nýtist hins vegar ekki konum í sveitunum af því að búin eru með virðisaukakerfi. Þar er innskattur og útskattur og af því að konurnar eiga heima á bújörðum þá verður hver króna frá fyrstu stund í framleiðslu og sölu virðisaukaskattsskyld. Ég hef borið fram fyrirspurn til fjmrh. um hvort til greina komi að veita einhvers konar undaþágu frá þessum skatti þegar um er að ræða framleiðslu úr þessum íslensku efnum en það er ekki áhugi fyrir því að fara þá leið. Hins vegar er alveg ljóst að konur til sveita sem eru í þessari framleiðslu bera skarðan hlut frá borði í samanburði við konur annars staðar, eða karla ef svo ber undir. Ég er þó fyrst og fremst að ræða stöðu kvenna sem ég hef kynnst sem hafa reynt að bæta afkomu heimilisins og búsins með þessum hætti.

Mikilvægt er að leita leiða til að auka fjölbreytni í þessum atvinnuháttum, ekki að drepa niður þetta framtak með því að afrakstur örlítillar framleiðslu fari meira eða minna í skatta eða kostnað. Ekki hefur verið gripið til neinna aðgerða í þessum efnum hjá ríkisstjórninni. Ég hvet hæstv. viðskrh. sem situr þessa umræðu --- mér finnst það mikilvægt að hún skuli gera það --- að taka þetta mál upp. Málið hefur verið tekið upp við hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. án nokkurs árangurs. Það þarf svo lítið til að efla þann vísi að framkvæmdum sem þarna er að finna og byggja á því sem fólk er að gera. Menn eru jafnvel að taka upp gamalt handverk sem er annars mundi hverfa úr samfélagi okkar. Þetta þarf að styðja og efla.

Þetta langar mig að koma inn á, virðulegi forseti, í tilefni af tillögunni sem hér er flutt án þess að taka beinlínis afstöðu til þess hvort sjóðir sem þegar eru fyrir hendi gætu gagnast í aðgerðir í dreifbýlinu eða hvort þörf er á að bæta við 250 millj. kr. eins og tillaga er um hér. Hins vegar alveg ljóst að bæta þarf einhverju fjármagni við í sértækar aðgerðir af þeim toga sem ég geri hér að umtalsefni. Það sem gert hefur verið hingað til er ekki nægilegt. Þess vegna fagna ég því að þessi tillaga sé komin fram. Hún gefur okkur enn eitt tilefni til að ræða stöðu atvinnulífs í dreifbýli.