Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:20:31 (4711)

2000-02-22 19:20:31# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:20]

Þuríður Backman:

Herra forkseti. Ég fagna þáltill. þeirri er hér hefur komið fram um að efla og samræma aðgerðir til að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli. Ekki veitir nú af. Við þekkjum öll í þessum sal og vonandi í þjóðfélaginu öllu hvert stefnir með íbúaþróun í landinu. Því miður virðist ekkert hægja á umferðinni frá dreifbýli til þéttbýlis, þ.e. frá landinu í heild til höfuðborgarsvæðisins. Okkur ber því að nota allar þær leiðir og úrræði sem við höfum yfir að ráða til að reyna að snúa þessari þróun við. Hér er viðleitni í þá átt og mjög áhugaverð því að hér er ekki um mikla fjármuni að ræða.

Mér skildist á hæstv. iðnrh. að ekki væri ástæða til að hafa til þessa sérstakan sjóð. Hér er ekki lagt til að stofna sérstakan sjóð heldur væri þetta aukaframlag til eflingar atvinnulífi í dreifbýli. Þá mætti líta svo á að þetta sé viðbót við það sem þegar er unnið að og þá fjármuni sem fóru af fjárlögum í vetur til Byggðastofnunar til eflingar atvinnuþróun á landsbyggðinni. Þetta væri þó sérstaklega eyrnamerkt til þessa verkefnis því að annars rynni það út í reksturinn almennt.

Það er sannarlega rétt að sem betur fer eru þróunarfélög starfandi í kjördæmum landsins. Þar eru áherslur og virkni mismunandi eftir svæðum og fer auðvitað eftir starfsmönnum þeirra. Því er mikilvægt að virkt samráð og samstarf sé á milli þessara aðila. Ég veit að samráði hefur þegar verið komið á og auðvitað er það til þess að styrkja þróunarstofurnar. Við vitum öll hvernig það er að vinna einn og sjálfur að stórum verkefnum. Það verður ekki eins mikið úr hlutunum og einnig er óþarft að finna upp hjólið á hverjum einasta stað.

Auðvitað er brýnt að gefa út handbók eða leiðbeiningar fyrir fólk í leitað nýjum atvinnutækifærum hvort sem það er í formi bókar eða með rafrænum upplýsingum, heimasíðu. Það er kannski það sem við erum að taka upp í dag. Við beinum fólki raunar inn á heimasíðurnar. Þar er hægt að uppfæra upplýsingar auðveldlega og í raun hægt að ætlast til að þar séu réttar upplýsingar frá degi til dags. Kerfið er frumskógur fyrir fólk. Það er með hugmynd, hefur áhuga og það veit að það getur framkvæmt hugmyndina. En hvert á það að leita, hvernig á það að fá fjármuni, hvað á það að gera? Það veit af þróunarstofunni en gott væri að koma þessum upplýsingum sem mest beint til fólksins sjálfs. Ef þessu verður komið á, sem mér skildist á hæstv. ráðherra að mundi verða, þá fagna ég því sannarlega.

Þessi tillaga tekur sérstaklega til smáiðnaðar. Við höfum rætt mikið um stóriðju í þessum sal. Nú er komið að smáiðnaði og tækifærin á því sviði eru ótæmandi. Möguleikarnir eru margir. Við höfum e.t.v. ekki hugað nóg að því. Við erum kannski ekki komin alveg í takt við sjálf okkur þegar við tölum um að auka ferðaþjónustuna, lengja ferðamannatímann, hafa af þessu tekjur. Það vantar heilmikið upp á að við nýtum okkur þetta tækifæri að fá slíkan fjölda ferðamanna til landsins. Fram undir þetta hefur langmest af þeim minjagripum sem seldir eru verið framleiddir erlendis og þá helst í Kína þar sem hægt er að láta gera þá fyrir lágar upphæðir.

Það þarf sérstaklega að huga að afkomu kvenna í dreifbýli, sama hvort það er til sjávar eða sveita. Staða þeirra er erfið. Þær eru margar hverjar bundnar búi og börnum, hafa hugsanlega heldur ekki menntun eða tækifæri til þess að fara út á þann vinnumarkað sem þó býðst. Öll viðleitni í þessa átt og þessar 250 millj. veit ég að gætu gert kraftaverk fyrir marga eins og vitnað var til hér varðandi Jóhönnusjóðinn á sínum tíma.