Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:36:10 (4714)

2000-02-22 19:36:10# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., Flm. HErl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:36]

Flm. (Helga A. Erlingsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka umræðuna sem hefur farið fram um þessa tillögu mína. Ég þakka hæstv. iðn.- og viðskrn. fyrir að vera í salnum og er gott að heyra að hún ætlar sér margt í þessum málum. Ég vona að hún taki mið af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hér.

Eins og fram hefur komið er afar mikilvægt að sinna atvinnumálum þar sem það getur skipt sköpum fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum að það þurfi ekki að flytjast í burtu frá sínu fólki og eignum. Þær eru ekki svo verðmiklar að það er betra að geta búið í þeim en þurfa ekki að flytja sig til.

Varðandi Jóhönnusjóðinn svokallaða langaði mig aðeins að ítreka það sem ég hef heyrt hjá fólki sem vinnur við þessi mál, að sá sjóður hafi raunar kannski skilað mestum árangri í þá veru að stuðla að bættri atvinnu vítt um land og þá sérstaklega hjá konum. Sjóðurinn er fyrir konur og sýnir kannski hvað þær fara vel með því ekki er um að ræða háar upphæðir yfirleitt. Þær eru venjulega, eins og ég kom inn á áðan, 100--300 og upp í 500 þúsund. Ég veit um mörg tilfelli þar sem sótt hefur verið um hærri upphæðir en ekki fengist og þó hefur verið afgangur í sjóðnum. Ég vil því leggja áherslu á að með einhverjum hætti verði sett meira fjármagn til þessa verkefnis.

Mér hefur líka skilist á fólki sem vinnur að þessum málum og jafnvel hjá viðkomandi sjóðum að til séu nógir peningar. Mér er eiginlega alveg sama hvaðan gott kemur, bara að þessu verði sinnt. Ég er alveg viss um að þetta verður að gerast núna því annars erum við kannski orðin of sein. Þetta er ekki svo blómlegt hjá okkur í dreifbýlinu að það verður að taka á þessu.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom aðeins inn á virðisaukaskattinn. Fólk sem ekki er t.d. aðilar að búi eða er ekki með virðisaukaskattsnúmer getur framleitt upp í 180 þús. sem er svo sem ekki há upphæð. En það hefur stundum verið talað um það hvort ekki mætti gera einhverjar undantekningar þegar verið er að koma svona atvinnu af stað, t.d. hliðra þarna eitthvað til og hafa þessa upphæð nokkuð hærri því þá yrði handverk og smáiðnaður kannski sýnilegri. Hann er heldur oft í felum. En ef þetta væri eitthvað sem akkur væri í að koma á framfæri og ekkert feimnismál hvað fengist fyrir, þá er ég alveg viss um að það skili til ríkissjóðs ekkert síður en hafa þetta eins og það er. En þetta er náttúrlega vandamál þar sem sumir geta notið þess að framleiða og selja upp að vissri upphæð en aðrir ekki. Ég veit svo sem að það er flókið að breyta þessu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég er búin að koma því að sem ég ætlaði og vona að málið fái jákvæða umfjöllun og veki menn til umhugsunar um að nú sé vert að taka á í þessum málum og sjáum svo hvort það komi ekki til góða.