Sala Sementsverksmiðjunnar hf.

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:33:59 (4717)

2000-02-23 13:33:59# 125. lþ. 70.11 fundur 348. mál: #A sala Sementsverksmiðjunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Heimild fékkst á fjárlögum ársins 1997 til að selja 25% hlutafjár í Sementsverksmiðjunni. Næstu missirin kannaði iðnrn. í samráði við einkavæðingarnefnd og heimamenn hvort og þá hvernig væri æskilegt að ríkið minnkaði hlut sinn eða losaði sig algjörlega út úr sementsrekstri.

Sú ákvörðun var tekin að nýta hvorki fyrirliggjandi söluheimild né óska eftir heimild Alþingis til frekari sölu. Sú niðurstaða byggðist að miklu leyti á neiðkvæðri afstöðu heimamanna til sölu verksmiðjunnar. Engar áætlanir eru nú uppi um að selja verksmiðjuna. Ég er ekki hlynnt því að einkavæða fyrirtæki sem hafa markaðsráðandi stöðu. Ríkiseinokun er skaplegri en einkaeinokun.

Hins vegar eru teikn á lofti um að staða verksmiðjunnar sé að breytast og virk samkeppni sé að skapast í þessari grein. Danskir framleiðendur hafa gefið út þá yfirlýsingu að þeir hyggist koma inn á íslenska sementsmarkaðinn. Skapist virk samkeppni í þessari grein þá kunna forsendur að breytast fyrir sölu verksmiðjunnar.

Síðari spurningin hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Ætla stjórnvöld með einhverju móti að tryggja áframhaldandi framleiðslu sements á Íslandi við sölu fyrirtækisins? Ef svo er, með hvaða ráðum verður það gert?``

Eins og ég sagði áðan eru engar áætlanir nú uppi um sölu verksmiðjunnar. Hins vegar er það alveg ljóst að stjórnvöld munu aldrei geta tryggt áframhaldandi framleiðslu sements á Íslandi, ekki nema sú ákvörðun væri tekin að loka alfarið fyrir möguleika á innflutningi. Það er að sjálfsögðu ekki sú stefna sem við viljum taka.