Sala Sementsverksmiðjunnar hf.

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:38:10 (4720)

2000-02-23 13:38:10# 125. lþ. 70.11 fundur 348. mál: #A sala Sementsverksmiðjunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að ástæða er til að þakka hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa að ekki standi til að selja Sementsverksmiðjuna núna. Hins vegar finnst mér það ekki nóg. Ég tel að menn þurfi að fara yfir þetta mál núna einfaldlega vegna þess að fyrir liggja nýjar upplýsingar um stórt fyrirtæki sem er engin smásmíði á mælikvarða Sementsverksmiðjunnar því að það framleiðir held ég þrjár til fjórar milljónir tonna af sementi meðan þessi verksmiðja hér framleiðir ekki nema 120 þús. tonn á ári. Þó að hv. þm. Guðjón Guðmundsson hafi sagt áðan að sementsverksmiðjan okkar væri fullkomlega samkeppnisfær á þeim markaði þá er ég því miður ekki alveg jafnviss um það vegna þess að þær stóru verksmiðjur sem Sementsverksmiðjan þarf þá að keppa við framleiða náttúrlega margfalt á við það sem hún gerir.

Ég tel þess vegna að full ástæða sé fyrir ríkisstjórnina að fara yfir málið núna, velta því fyrir sér hvaða aðstæður eru að skapast og taka afstöðu á þeim grundvelli. Það er ekki bara nóg að segja: ,,Við ætlum ekki að selja Sementsverksmiðjuna.`` Það verður líka að vera einhver stefna í því hvernig menn ætla að mæta þá þeim aðstæðum sem eru núna að koma upp. Og ef það verður ekki gert þá getum við staðið frammi fyrir því innan skamms að þetta fyrirtæki okkar lognist út af í samkeppni við erlendan innflutning. Það er betra að horfast í augu við það áður en til þess kemur en að bíða bara eftir því að Sementsverksmiðjan fari hreinlega á hausinn.