Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:55:04 (4732)

2000-02-23 13:55:04# 125. lþ. 70.12 fundur 355. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa tjáð sig að það er mjög brýn þörf á því að fara í þessa vinnu. En vegna þeirra orða sem hér féllu hjá hv. 2. þm. Austurl. þá er nú ekki við fyrrv. iðnrh. að sakast í þessum efnum þar sem iðnrn. fékk þetta mál ekki til meðferðar frá forsrn. fyrr en í síðustu viku þannig að það var brugðist allhratt við þegar málið barst, tel ég mig mega segja.

Af því að hér hefur verið talað nokkuð um kostnað í sambandi við þetta --- hv. þingmenn velta því að sjálfsögðu fyrir sér --- þá kom fram við fyrirspurn á hv. Alþingi áður að kostnaður við að þrífasa rafmagn í kerfi Rariks var þá talinn vera um 8,6 milljarðar kr. og auk þess yrði talsverður kostnaður hjá Orkubúi Vestfjarða og hugsanlega einhverjum rafveitnanna. Kostnaðurinn liggur því einhvers staðar á því bili.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er meiri hluti íbúa í sveitum landsins eingöngu með aðgang að einfasa rafmagni. Þetta er ekki bundið við ákveðin svæði eða landshluta heldur er kerfið þannig upp byggt að út frá aðveitustöðvum liggja þriggja fasa meginlínur og strengir um þéttbýlustu svæðin en að öðru leyti er um einfasa rafmagn að ræða.

Þá er ástæða til þess að geta þess líka að hægt er að breyta einfasa rafmagni í þriggja fasa á hverjum stað fyrir sig. Að vísu er það allkostnaðarsamt. Ég tel að það sé líka mál sem þurfi að athuga, þ.e. hvort í einhverjum tilfellum sé það ódýrara en að leggja þrífasa rafmagn um allar byggðir.