Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:57:31 (4733)

2000-02-23 13:57:31# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 609 hef ég lagt fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um olíuleit við Ísland, með leyfi forseta:

,,1. Hve miklu fé hefur verið varið til rannsókna sem gerð var tillaga um í skýrslu starfshóps iðnaðarráðuneytisins um olíuleit frá 15. júní 1998?

2. Að hvaða tillögum starfshópsins hefur verið unnið?

3. Hvernig verður unnið áfram að tillögum starfshópsins um leit að olíu?

4. Eru hafnar viðræður í framhaldi af erindum tveggja erlendra olíufélaga til stjórnvalda um áhuga þeirra á olíuleit innan íslenskrar lögsögu, samanber orð þáverandi iðnaðarráðherra í Morgunblaðinu 31. október 1998? Ef svo er, hver er staða þeirra mála?

5. Hafa fleiri aðilar sýnt olíuleit áhuga?``

Eins og fram kemur skilaði nefnd iðnrn. af sér viðamikilli skýrslu. Nefndin var skipuð í framhaldi af þáltill. sem ég flutti hér fyrir nokkrum árum. Í þessari skýrslu, Leit að olíu, kemur fram m.a. það sem nefndin lagði til, þ.e. framhald könnunar og forgangsverkefni.

Í fyrsta lagi var talað um að draga saman efni í skýrslu um olíulíkur á Tjörnesbrotabeltinu, í öðru lagi að afla bergsýna með skipulögðum hætti á Tjörnesi með grunnborunum, í þriðja lagi að kanna á hvern hátt þakberg og geymisberg gæti komið fyrir í heppilegri samstöðu á dýpi og í fjórða lagi að kortleggja hafsbotninn víðar og nákvæmar og einnig nokkuð niður í setlögin undir botninum.

Í öðru skrefi er svo langtímaverkefni. Ef jákvæðar niðurstöður fást úr ofangreindum aðgerðum gætu þær hvatt til frekari athugana sem yrðu dýrari en gæfu ákveðnar vísbendingar. Sem dæmi má benda á tvo augljósa möguleika. Í fyrsta lagi borun í Grímsey. Talið er að setlög gætu náð undir eyna en rannsókn þeirra mundi gefa til kynna hvers konar setbergs sé að vænta. Í öðru lagi frekari margrása endurkastsmælingar, þ.e. bergmálsmælingar sem ná djúpt í jörðu. Núverandi net er mjög gisið. Viðtækari mælinga er þörf svo að greina megi betur lögun og lagbyggingu setlagsdældanna og síðan benda á mögulegar olíugildrur.