Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:00:30 (4734)

2000-02-23 14:00:30# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hefur árleg fjárveiting til landgrunnsrannsókna numið 2 millj. kr. Eftir að samráðsnefnd um landgrunns- og olíuleitarmál var skipuð í febrúar 1999 hefur hún lagt á ráðin um hvernig þessum rannsóknum skuli hagað. Á síðasta ári var 1,1 millj. kr. varið til verkefna sem samstarfshópurinn um olíuleit gerði tillögur um í áliti sínu 17. ágúst 1998 en 900 þús. kr. var varið til sérfræðiþjónustu við samráðsnefndina vegna viðræðna við olíufyrirtæki og við utanrrn. vegna hafréttarmála.

Í sept. 1999 gerði samráðsnefndin tillögur um rannsóknir á árinu 2000 sem byggðu á tillögum starfshóps frá 1998 og hefðu kostað 8 millj. kr. Vegna óvissu um niðurstöður viðræðna við olíufyrirtæki var ekki tekin afstaða til þessara tillagna við gerð fjárlagaársins 2000 og því er fjárveitingin fyrir árið 2000 óbreytt eða 2 millj. kr. Samráðsnefndin hefur lagt til að mestur hluti hennar renni til sérfræðiþjónustu við gerð frv. til laga um leit og vinnslu kolefna auk sérfræðiþjónustu við nefndina. Jafnframt ítrekaði samráðsnefndin tillögur sínar um að fjárveiting til landgrunnsrannsókna og olíuleitar verði aukin um 8 millj. kr. Ráðuneytið hefur þessar tillögur nú til skoðunar.

Að undanförnu hefur verið unnið að tveimur rannsóknarverkefnum sem starfshópurinn lagði til. Í fyrra verkefninu var unnið á sérstakan hátt úr dýptarmælingum sem Sjómælingar Íslands hafa gert á undanförnum árum úti fyrir Norðurlandi. Tilgangurinn með úrvinnslunni var að auðvelda frekari leit að stöðum þar sem olía eða gas gæti lekið til yfirborðs. Með úrvinnslunni tókst að staðsetja virkt misgengi þar sem setlögin eru hvað þykkust og olíulíkur ættu að öðru jöfnu að vera hvað mestar. Því mun nú kleift að kanna með tiltölulega ódýrum og einföldum hætti hvort olía eða gas leki til yfirborðs eftir misgengjunum.

Í síðara verkefninu voru nýtt hagstæð skilyrði sem sköpuðust í tengslum við borun á jarðhitasvæðinu við Bakkaflöt í Öxarfirði. Olíugastegundum í sandinum var safnað með einföldum búnaði og þær greindar í sérstökum gasgreini sem notaður var við borunina. Athugunin sýndi að olíugas svipað því sem áður hefur fundist við Skógarlón streymir upp til yfirborðs víðar í Öxarfirði. Útbreiðslu uppstreymissvæðanna má kanna með þessari ódýru aðferð.

Viðræður við olíufyrirtæki hafa sýnt að áhugi á olíu- og gasleit í íslenskri lögsögu er til staðar. Leit verður hins vegar fljótt svo kostnaðarsöm að hún verður ekki kostuð af ríkisfé. Því er nauðsynlegt að til komi fjárfesting annarra aðila. Erlend fyrirtæki sem líklegust eru til að kosta leit munu ekki koma að henni fyrr en sett hafa verið lög um starfsemina og hefur lagasetning því forgang. Ég hef því látið hefja smíði slíks frv.

Forkannanirnar sem starfshópurinn um olíuleit gerði tillögur um eru ágætar. Þær hafa verið framkvæmdar að hluta og hefur ráðuneytið til skoðunar hvort skynsamlegt sé að þeim verði fram haldið á kostnað ríkissjóðs. Samráðsnefnd um landgrunns- og olíuleitarmál hefur annast samskipti við þau tvö erlendu olíufélög sem sýnt hafa áhuga á olíuleit innan íslenskrar lögsögu. Annað þeirra hefur einungis óskað eftir almennum upplýsingum en sérfræðingur á vegum hins heimsótti Ísland í ágúst í fyrra í þeim tilgangi að afla upplýsinga um möguleika fyrirtækisins á olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Hann lýsti yfir áhuga fyrirtækisins á að fá leyfi til olíu- og gasleitar allt frá Jan Mayen hrygg í norðri að Hatton-Rockall banka í suðri. Hann lýsti einnig yfir áhuga á setlagasvæðinu fyrir norðan landið þó að hann teldi það sísta svæðið. Fyrirtækið lagði einnig áherslu á að grundvallarforsenda fyrir því að það legði fé í olíu- og gasleit í íslenskri lögsögu væri að sett yrðu lög um leit að olíuefnum og vinnslu þeirra ásamt reglum um veitingu leitar- og vinnsluleyfa.

Frekari viðræður hafa ekki farið fram milli fyrirtækisins og íslenskra stjórnvalda en í byrjun febrúar ársins 2000 bárust formlegar umsóknir fyrirtækisins um leyfi til olíu- og gasleitar í íslenskri lögsögu. Engir aðrir aðilar en þessi tvö fyrirtæki hafa sýnt áhuga á olíuleit í íslenskri lögsögu. Í ráðuneytinu liggur fyrir stöðuskýrsla samráðsnefndar um landgrunns- og olíuleitarmál um olíuleit við Ísland.