Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:07:02 (4736)

2000-02-23 14:07:02# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef fengið það leiða hlutverki á undanförnum árum, þegar þessi mál hefur borið hér á góma, að vara við óhóflegri bjartsýni á það að Ísland eigi eftir að verða í hópi meiri háttar olíuríkja. Ég er þeirrar skoðunar enn að því miður sé ótímabært að taka væntanlegan olíugróða inn í bókhaldið hjá okkur. Það breytir ekki því að sjálfsagt mál og þarft er að kanna þá möguleika sem þarna kunna að vera og ég útiloka alls ekki að einhvern tíma í framtíðinni kunni Ísland að gerast aðili að eða eiga hlutdeild í olíu- eða gasvinnslu, þó að ég efist nú um að það verði í stórum stíl.

En rannsóknirnar eru þarfar og það vekur athygli á öðru, herra forseti, sem mér finnst stundum gleymast í áráttu manna til þess að leggja hagnýtt mat á alla hluti. Það er ósköp einfaldlega sú staðreynd hversu sorglega illa við erum á vegi stödd hvað varðar grunnrannsóknir af þessu tagi, t.d. á jarðfræði hafsbotnsins í kringum landið. Slíkar almennar grunnrannsóknir mundu svara mörgum af þeim spurningum sem við erum nú að ræða og tengjast mögulegri olíuvinnslu sérstaklega.