Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:08:31 (4737)

2000-02-23 14:08:31# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er miður ef hv. þm. telja nauðsynlegt að vera í hlutverki þeirra sem hvetja til að hefjast ekki handa. Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að við höldum þessu máli áfram eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir að ætlunin er. Ég tel raunar brýnt að við leggjum meira fé til þessa verks en gert hefur verið. Ég tel fleira liggja undir en hugsanleg olíuréttindi, sem engin vissa er fyrir. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að við sýnum fram á vilja okkar til að rannsaka hafsbotninn. Það kunna að vera aðrar auðlindir þar undir sem jafnvel gætu skipt okkur meira máli.

Ég tel rétt að endurvekja mál sem hér var oft rætt á árum áður, sérstaklega af einum hv. þm. sem ekki er lengur í þessum sölum, þ.e. að Íslendingar geri grein fyrir hugmyndum sínum og kröfu til réttinda við Hatton-Rockall. Ég tel nauðsynlegt í þessu máli sem öðrum að við gerum grannþjóðum okkar grein fyrir því að við teljum okkur eiga hagsmuni undir því hvernig gengið er um hafsvæði og hafsbotn langt út frá þessu landi. Við höfum ekki á miklu öðru að byggja og má vel vera að fleiri mál í dag víki að þessu efni.

Það er rétt að fram komi, herra forseti, að við munum vera eina þjóðin eða eina ríkið á þessum slóðum sem ekki hefur þegar sett löggjöf um slíka leit og vinnslu.