Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:27:17 (4744)

2000-02-23 14:27:17# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir að ljá máls á Sellafield-vandræðunum hér utan dagskrár á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað ljóst, eins og hv. málshefjandi hefur sagt, að sendibréf, símtöl og ályktanir duga ekki lengur í þessu máli. Það þarf að grípa til annarra og áhrifameiri aðgerða og það er auðvitað verkefni hins háa Alþingis og ríkisstjórnar Íslands að koma sér saman um hverjar þær eru og hvernig hægt er að koma því mjög skýrt til skila við bresk stjórnvöld að við svo búið getum við ekki unað.

Bresk stjórnvöld hafa samkvæmt OSPAR-samningnum ákveðnar skuldbindingar sem þau verða að uppfylla. En ég tel fulla ástæðu til þess að á fundinum í júní nk. verði þær skuldbindingar teknar til endurskoðunar og að það verði beinlínis hrein og klár krafa aðildarríkja þar og íslensku ríkisstjórnarinnar að þessari starfsemi verði hætt. Við vitum að hæstv. utanrrh. mun hitta starfsbróður sinn breskan á föstudaginn kemur og væntanlega verðum við einhverju nær um bresk tíðindi að þeim fundi loknum.

Ég vil bara rétt að lokum nota tækifærið til þess að minna hv. þingmenn á það að umhverfismál eru mestu öryggismálin. Það sýnir dæmið um Sellafield. Öryggi Íslendinga, afkoma þessarar þjóðar byggir á góðri umgengni við umhverfið, ekki bara okkar heldur allra annarra.