Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:30:30 (4746)

2000-02-23 14:30:30# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), MSv
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Margrét K. Sverrisdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa brýnu utandagskrárumræðu.

Í gær mótmæltu ríkisstjórnir sex Evópulanda þeirri staðreynd að skýrslur um öryggismál hafa verið falsaðar kerfisbundið í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield á Bretlandi. Þá hafa umhverfisráðherrar fimm Norðurlanda, þar með talið Íslands, lýst þungum áhyggjum sínum vegna málsins og hæstv. utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hefur lýst því yfir að hann hyggist ræða þessi mál við Robin Cook, utanríkisríkisráðherra Breta, á fyrirhuguðum fundi þeirra nk. föstudag.

Viðbrögð hafa sem sagt verið harkaleg við þessum válegu tíðindum og er það vel. Lífríki hafsins umhverfis Ísland er ógnað. Geislavirkni í hafi hefur hingað til mælst mjög lítil hér við land og við höfum verið vakandi yfir starfsemi kjarnorkuvera í öðrum löndum og flutningi með geislavirk efni. Rétt er að benda á í því sambandi að endurvinnsla á kjarnorkueldsneyti er ein helsta orsök mengunar af völdum geislavirkra efna í Norður-Atlantshafi.

Herra forseti. Það er full ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur af þeim fréttum sem hafa borist af öryggismálum í Sellafield. Hingað til höfum við talið okkur geta treyst þeim upplýsingum um öryggisráðstafanir varðandi kjarnorkuvinnslu sem við höfum fengið, en nú hefur komið upp alvarlegur trúnaðarbrestur í samskiptum okkar við vinaþjóð.

Ég vil geta þess að í stefnuskrá Frjálslynda flokksins í umhverfismálum er endurvinnslustöðvunum í Sellafield og Dounreay mótmælt vegna mengunaráhrifa þeirra.

Herra forseti. Ég vil að lokum lýsa því yfir fyrir hönd Frjálslynda flokksins að við teljum að okkur Íslendingum beri hiklaust að krefjast þess að kjarnorkustöðinni verði lokað eins fljótt og auðið er.