Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:34:45 (4748)

2000-02-23 14:34:45# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Ólafur Örn Haraldsson:

Herra forseti. Við Íslendingar eigum að krefjast þess að Sellafield-stöðinni verði lokað hið fyrsta. Breskir aðilar hafa brugðist því trausti sem við höfum sýnt þeim og við getum ekki tekið alvarlega lengur þær upplýsingar sem þeir setja fram í viðræðum við okkur um þessi alvarlegu mál. Þó höfum við gert það hingað til þegar við höfum mótmælt þessu válega framferði á vettvangi Norðurlandasamstarfsins.

Við skulum minnast þess að þessi kjarnorkuendurvinnslustöð situr hér í skjóli nágrannaþjóðar, þjóðar sem við eigum mjög mikil viskipti við, þjóðar sem við eigum margra alda menningarsamstarf við og þjóðar sem við teljum til vinaþjóða okkar. Á sama tíma og við erum nú bæði í Evrópuráðinu, eins og kom hér fram áðan, og á öðrum vettvangi að setja lög og alþjóðasamninga um umhverfismál í samstarfi við Breta þá getum við ekki sætt okkur við að þeir haldi þessu máli í skjóli og ógni með því móti lífríki hafsins umhverfis Ísland og í Norðurhöfum, ógni dýrastofnum í Norðurhöfum og ógni efnahagslífi Íslendinga.