Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:36:25 (4749)

2000-02-23 14:36:25# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda þessa umræðu. Það er brýn nauðsyn að íhuga óhugnanlega stöðu mengunarmála frá Sellafield. Þingmenn Íslands á vettvangi alþjóðanefnda verða ávallt að vekja athygli á því sem verið er að gera lífríkinu með Sellafield-menguninni.

Sú staðreynd liggur fyrir að þrávirk efni berast með hafstraumum upp með Noregi til Íslands og Grænlands. Það er staðfest að úrkynjun lægri dýrastofna er staðreynd. Úrkynjun mannsins eða hæfni til tímgunar er staðfest af vísindamönnum. Það er skylda hæstv. umhvrh. að hervæða alla þingmenn í alþjóðanefndum þannig að þeir séu ávallt reiðubúnir að kynna og tala fyrir málstað Íslands og vekja þannig athygli á þeim alvarlegu hlutum sem eru að gerast vegna mengunar frá kjarnorkuverum.

Herra forseti. Það er ekki síður ástæða að minnast á að á Atlantshafsbotni liggja kjarnorkukafbátar. Í Rússlandi eru þeir tugum saman þar sem þeir grotna niður og þar bíður mikil vá. Ég tel að hv. Alþingi eigi enn að ítreka mótmælin vegna Dounreay og THORP-endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield. Ég vitna til þál. frá 8. febr. 1988 og frá 17. des. 1993 og ég vitna til ítrekaðra fregna af andvaraleysi breskra stjórnvalda og skorts á vitneskju um athæfi þessara endurvinnslustöðva.

Hæstv. umhvrh. Í þessu máli snúum við öll bökum saman með það að markmiði að ná árangri. Lokum Sellafield.