Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:38:30 (4750)

2000-02-23 14:38:30# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Öryggismál í Sellafield og losun teknesíum-99 í hafið frá stöðinni er grafalvarlegt mál og löngu ljóst að þarna þarf að grípa inn í með mjög afgerandi hætti. Það verður einfaldlega að viðurkennast að tilburðir til að mótmæla hafa þjónað litlum tilgangi fram að þessu.

Með OSPAR-samningnum skuldbundu Bretar sig til að vernda lífríkið í Norður-Atlantshafi fyrir geislavirkum efnum. Í umræðum við íslenska þingmenn í Árósum 1998 lofaði umhverfisráðherra Breta, Michael Meacher, því að skoða þetta í því augnamiði að hætta losun þessa efnis í hafið eða loka stöðinni í Sellafield ella.

Það samkomulag sem síðar hefur orðið er að mínu áliti alls óviðunandi. Það getur aldrei orðið ásættanlegt af okkar hálfu að losun teknesíum-99 verði leyfð til ársins 2020 eins og hæstv. umhvrh. upplýsti hér í umræðunni sl. sumar að yrði niðurstaðan. Því má ekki gleyma að teknesíum-99 er ekki náttúrlegt efni og því verður aldrei um neinn náttúrulegan bakgrunn eða bakgrunnsígildi að ræða í hafinu af þessu efni. Helmingunartími teknesíum-99 er yfir 200.000 ár eins og komið hefur fram. Með öðrum orðum, það fer aldrei úr lífríkinu ef það er komið þangað á annað borð. Þessu efni er þessa stundina dælt í miklu magni frá Sellafield og hefur verið gert í nokkur ár.

Herra forseti. Ef bresk stjórnvöld fá ein að ráða verður því haldið áfram til ársins 2020 eða lengur. Fyrir íslenskan sjávarútveg er þetta hreint skemmdarverk og gæti hafa haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar efnið hefur mælst hér á þessu eða næsta ári. Framkoma Breta gagnvart okkur í þessu máli er allsendis forkastanleg.

Herra forseti. Slíkri framkomu hlýt ég að mótmæla harðlega. Losun teknesíum-99 í hafið frá Sellafield í Englandi verður að stöðva strax. Ef það er ekki hægt af tæknilegum ástæðum er það krafa að endurvinnslustöðinni í Sellafield verði lokað nú þegar.