Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:40:48 (4751)

2000-02-23 14:40:48# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á þessu grafalvarlega umhverfisvandamáli. Reyndar gerði hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir það einnig í þinginu hér á mánudaginn.

Breskir aðilar hafa hreinlega brugðist trausti á alþjóðavettvangi og ég geri þá kröfu til þeirra að Sellafield-stöðinni verði lokað hið allra fyrsta þar sem hér er um afar brýnt hagsmunamál Íslendinga að ræða. Við getum sett okkur í þau spor, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, hvað getur gerst hreinlega í lífríki sjávarins við Ísland og eins gagnvart nágrannaríkjum okkar. Þar sem ég tek þátt í Norðurlandasamstarfi þá mun ég gera hvað ég get til þess að vekja máls á þessu alvarlega máli og eins og kom reyndar fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá held ég að óhætt sé að segja að allur þingheimur sé mjög samstiga í þessu máli. Það eigum við að vera og ég tel reyndar að hæstv. umhvrh., Siv Friðleifsdóttir, hafi brugðist hratt og vel við.

Það kom fram í fréttum fjölmiðla í gær að á fundi umhverfisráðherra Norðurlandaráðs vék hún að þessu máli og það var til mikillar fyrirmyndar. Við eigum að snúa bökum saman. Við vitum líka að hæstv. utanrrh. tekur þetta mál upp í vikunni við stjórnvöld á Bretlandi. Við eigum að gera þá skýlausu kröfu að Sellafield-stöðinni verði lokað hið allra fyrsta.