Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:42:42 (4752)

2000-02-23 14:42:42# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin sem ég tel þó að hafi verið fullmild og hafa meiningar hennar verið betur yddaðar í annan tíma um önnur mál. Ég brýni hæstv. umhvrh. enn frekar í þessu máli.

Ég vil ítreka spurningu mína sem ég lagði hér fram: Er hæstv. umhvrh. tilbúin að mæta fyrir okkar hönd á fundinn hjá OSPAR-ríkjunum í júní og setja fram þá skýlausu kröfu íslenskra stjórnvalda að Sellafield-stöðinni verði lokað?

A.m.k. verður að hætta losun teknesíum-99 í hafið strax. Þetta er sú krafa sem verður að setja fram og ég óska eftir að hæstv. umhvrh. gefi okkur einhverjar vísbendingar um afstöðu sína, þ.e. hvort hún geti tekið svo djúpt í árinni við yfirvöld því að það er á vettvangi OSPAR-samningsins sem við þurfum að vinna þetta mál.

Herra forseti. Írska ríkisstjórnin hefur formlega sett fram kröfu um að stöðinni verði lokað enda eru Írar næstu nábúar stöðvarinnar. Ég held að íslensk stjórnvöld verði til mikillar fyrirmyndar ef þau eru tilbúin til þess að fylkja sér að baki Írum ásamt því að taka Norðurlandaþjóðirnar með í þessa baráttu og styðja kröfu Íra sem þeir eru búnir að setja fram formlega, að stöðinni verði lokað, því að skýlausa kröfu af því tagi höfum við enn ekki fengið að heyra frá íslenskum stjórnvöldum. Hæstv. umhvrh. sagði áðan að hún væri til í að skoða þann möguleika eða að hún vildi sjá stöðinni lokað. Það hefur hæstv. utanrrh. líka látið í ljósi. En formlega hefur sú krafa ekki verið sett fram.

Herra forseti. Hér þarf að bregðast við á miklu róttækari hátt en gert hefur verið. Íslendingar eiga rétt á því að losun geislavirkra efna í hafið hér rétt suður af verði hætt tafarlaust. Og ef sú krafa verður ekki sett fram og fast við hana haldið þá gætum við þurft að horfa upp á að fótunum yrði kippt undan sjávarútvegi okkar og íslenskum efnahag og hann lagður í rúst í einu vettvangi.