Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:46:55 (4753)

2000-02-23 14:46:55# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir afar góðar umræður um þetta stóra mál. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þingheimur hefur sameiginlega afstöðu í málinu, telur að hér sé um alvarlegt mál að ræða og óásættanlegt að búa við það að Bretar losi geislamengandi efni í hafið og menn vilja loka stöðinni. Menn eru sammála um þetta. Þetta er stefna stjórnvalda og þeirra þingmanna sem hér hafa talað.

Hér hefur verið sagt: Það er búið að senda sendibréf, símtöl hafa farið fram, sendar áskoranir, tvíhliða viðræður hafa átt sér stað. Það er búið að reyna allt en við náum ekki nógu góðum árangri. Og það er alveg rétt. Hugmynd sem hér kom fram var að senda enn eina áskorunina, þ.e. að láta Norðurlöndin safnast saman með Írum og skora á Breta að loka Sellafield á næstu fimm árum. Enn ein áskorunin og menn spyrja: Verðum við einhverju nær? Það má vel vera og ég vona það. Og mér finnst fyllsta ástæða til að taka þá hugmynd til skoðunar.

Aðalatriðið er að nú eru Bretar skuldbundnir af því að hætta losun árið 2020. Við viljum hins vegar að það verði gert mun fyrr, miklu fyrr og við höfum sett fram skýra kröfu um það. Við höfum þá stefnu að loka helst Sellafield. Við erum andvíg stöðinni. Þetta kemur fram hjá hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum. Hann mun eiga tvíhliða viðræður við bresk stjórnvöld síðar í vikunni. Hvað er hægt að gera meira en það sem við höfum gert? Hæstv. utanrrh. mun sitja augliti til auglitis við bresk stjórnvöld síðar í vikunni og fara fram með þá kröfu okkar að helst verði stöðinni lokað. Við viljum sjá meiri árangur en hingað til hefur sést.