Notkun þjóðfánans

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:09:44 (4766)

2000-02-23 15:09:44# 125. lþ. 70.3 fundur 315. mál: #A notkun þjóðfánans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurn:

,,Hve margir einstaklingar eða fyrirtæki hafa sótt um leyfi til forsætisráðuneytisins um notkun þjóðfánans í vörumerki, á söluvarning eða umbúðir, með tilvísun til 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið eins og henni var breytt með lögum nr. 67/1998?``

Herra forseti. Svarið við þessari fyrirspurn er út af fyrir sig einfalt: Enginn hefur sótt um leyfi til að nota þjóðfánann eða skírskotun til hans með þessum hætti frá því að verndarákvæði fánalaganna voru sérstaklega rýmkuð í því skyni fyrir tæpum tveimur árum.

Hvort þetta er til vitnis um almennt áhugaleysi framleiðenda á að auðkenna vörur sínar eða þjónustu með þessu upprunatákni skal ég ekki segja. Hitt get ég staðfest að forsrn. hefur ekki sérstaklega auglýst eða ýtt undir að eftir slíkum leyfum yrði leitað. Það kemur m.a. til af því að lagaheimild til að veita slík leyfi er ekki fastmótuð um þau skilyrði sem umsækjandi þarf að fullnægja til að hljóta leyfi. Heimildin er þvert á móti matskennd að því leyti að starfsemi sú sem í hlut á á að vera, eins og þar segir, með leyfi forseta ,,að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir með reglugerð``.

Eigi stjórnvöld að geta framfylgt slíkum ákvæðum af sæmilegu jafnræði gagnvart umsækjendum þarf að vera hægt að leggja einhvern hlutlægan mælikvarða á þau skilyrði sem umsókn þarf að fullnægja. Gæðahugtakið hefur ekki reynst sérstaklega auðvelt viðfangs í því tilliti því að það skírskotar í eðli sínu til huglægrar viðmiðunar sem er vart tækt að beita í opinberri stjórnsýslu. Huglægt mat er eins og kunnugt er breytilegt frá manni til manns, það sem einum þykir gott eða fagurt getur öðrum þótt miður eða ljótt og yfirleitt þykir hverjum sinn fugl fagur o.s.frv. eins og menn þekkja til.

Í tillögu að reglugerð sem fylgdi frv. og hv. fyrirspyrjandi minntist á var að vísu gerð tilraun til að finna þessum gæðaviðmiðunum hlutlægar stoðir. Þar var gert ráð fyrir að hvers kyns vara eða þjónusta fullnægði lögboðnum gæðakröfum ef umsækjandi lýsti því yfir að rekstur hans, framleiðsla eða þjónusta fylgdi íslenskum stöðlum um gæðastjórnun og stjórnun umhverfisáhrifa. Enda þótt ekki sé vafa undirorpið að staðlar af þessu tagi stuðli að auknum gæðum þeirrar vöru og þjónustu sem framleidd er í samræmi við þá hefur ráðuneytið haft ákveðnar efasemdir um að þær viðmiðanir sem þeir veita komi að tilætluðum notum, bæði vegna þess að álitamál er hvort slíkir staðlar hafi raunverulega áunnið sér tilskilinn sess hér á landi en einkum og sér í lagi vegna þess að þeir gera í sjálfu sér ekki ráð fyrir að eftirlit sé haft með því hvort vara eða þjónusta fullnægi raunverulega þeim kröfum sem staðall setur nema fleira komi til. Yfirlýsing framleiðanda um að einhverjum slíkum staðli sé fylgt veitir því í sjálfu sér enga tryggingu fyrir því að svo sé jafnvel þótt framleiðandi kunni sjálfur að vera í góðri trú um það.

Af þessum sökum hefur dregist að setja þá reglugerð sem lagabreytingin frá 1998 gerir ráð fyrir. Til þess liggja hins vegar að mínum dómi mjög málefnalegar ástæður. Á móti kemur að þeir sem lagabreytingarnar voru líklega helst gerðar vegna, útflutningsatvinnuvegirnir, hafa ekki sýnt þessu auðkenni þann áhuga sem hv. fyrirspyrjandi og ég sjálfur sem hér stend höfðu þó væntingar um.