Notkun þjóðfánans

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:13:07 (4767)

2000-02-23 15:13:07# 125. lþ. 70.3 fundur 315. mál: #A notkun þjóðfánans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli að ekki skuli nein beiðni hafa borist af hálfu framleiðenda um að nýta sér þá rýmkun á reglunum um þjóðfánann sem gerð var með lögunum frá 1998. Ég var ein þeirra sem töldu og telja þetta mjög mikið framfaraspor að breyta lögunum í þá veru að heimila að nota fánann í vörumerki eða söluvarning, umbúðir eða auglýsingu á vöru eða þjónustu.

Það kemur þó óneitanlega upp í hugann hvort ástæðan sé sú að andi laganna eins og þau voru fyrir breytingu, þessi óttablandna virðing fyrir þjóðfánanum sem gerir það að verkum að Íslendingar hafa notað hann í mjög litlum mæli miðað við margar aðrar þjóðir, sé enn þá það sem er efst í hugum Íslendinga og hvort ekki væri verðugt verkefni fyrir forsrn. að fara út í sérstaka kynningu á þeim reglum þannig að sá andi laganna frá 1998 komi fram. Ég held nefnilega að þessi ótti við fánann sé mjög ríkur í þjóðarsálinni. Reglurnar eru það flóknar og þær eru það ítarlegar að fólk veigrar sér í rauninni við að nota fánann á eðlilegan hátt eins og þessi lög í núgildandi mynd þó leyfa.