Notkun þjóðfánans

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:15:59 (4769)

2000-02-23 15:15:59# 125. lþ. 70.3 fundur 315. mál: #A notkun þjóðfánans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans svör hér og þátttöku þingmanna í umræðu um þetta mál.

Það leiðir auðvitað hugann að því að í þeirri nefnd sem fjallaði um endurskoðun laganna var fulltrúi Ferðamálaráðs og jafnframt frá Útflutningsráði líka. En sá aðili lét að vísu af störfum um það leyti sem nefndin var að ljúka vinnu sinni. Það kann að vera hluti af skýringunni.

Hitt er annað að ég tók sérstaklega eftir því þegar ég flutti þessa þáltill. hér á þingi að margir alþingismenn vöruðu yfir höfuð við því að hrófla nokkuð við lögum um íslenska þjóðfánann. Það segir kannski til um það hve verndarákvæði fánans voru djúpt meitluð í huga Íslendinga. Það hefur því kannski vantað verulega á að leiða hugann að því sem aðrar þjóðir gera. Ég nefni Dani. Það er ekki langt síðan, það var rétt fyrir jól, að ég kom í verslun til þess að kaupa kerti. Það var merkt með norska fánanum og var norsk framleiðsla. Það kemur mér því mjög á óvart í allri umræðunni um ofverndun fánans hér á árum áður að enginn skuli hafa sýnt því áhuga og leitað til forsrn. til þess að fá heimild til að merkja sína útflutningsvöru. Ég tala nú ekki um ferskan fisk sem sendur er út með flugi.

Þessi umræða er auðvitað fyrst og fremst ætluð til að vekja athygli á málinu, vekja athygli útflytjenda á því hversu lög um fánann hafa verið rýmkuð. Það er rétt, eins og hæstv. forsrh. kom inn á, að auðvitað var nefndinni mjög í mun og átti í erfiðleikum með að koma þessu máli frá sér svo að vel væri vegna þessara miklu andstæðuhópa, annars vegar þeirra sem vildu engu breyta og hinna sem vildu gefa eftir jafnvel í það að frá 1. maí til 1. sept. mætti fáninn vera við hún allan sólarhringinn. Þar voru þessi miklu átök og þess vegna var þessi leið valin. En ég vona að hæstv. forsrh. reynist kleift að gefa út reglugerð svo að allir megi sæmilega vel við una og að hinn íslenski fáni fari víða um heim á góðri framleiðslu Íslendinga.