Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:19:04 (4771)

2000-02-23 15:19:04# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er þá er Flugstöð Leifs Eiríkssonar í rauninni samstarfsverkefni Íslendinga og varnarliðsins. Á hernaðartíma eða svokölluðum hættutímum má skilgreina flugstöðina sem hernaðarmannvirki. En að öllu jöfnu er þetta borgaralegt mannvirki þar sem megnið af alþjóðlegum flugsamgöngum Íslendinga fer um.

Vegna þessarar sérstöðu mannvirkisins gilda þar ýmsir ólíkir staðlar, annars vegar íslenskir og hins vegar staðlar varnarliðsins. Einn þeirra staðla sem um bygginguna gilda vegna þess að hún er að hluta til má segja hernaðarmannvirki er að þar skuli neysluvatn klórblandað. Það má segja að í rauninni sé það afleitur kostur og hljómi jafnvel hálfhjákátlega á Íslandi, landi hreinleikans, landi hins ferska lofts og ferska vatns, að í mannvirki þar skuli drykkjarvatn eða neysluvatn vera klórblandað. Þetta er auðvitað afleitt fyrir starfsfólkið og það er kunnugt að margt starfsfólk þarf að taka með sér ferskt vatn að heiman til þess að geta hellt upp á könnuna í vinnunni. En það sem er e.t.v. alvarlegast er að ég tel að þetta skaði ímynd landsins. Um flugstöðina fara hundruð þúsund erlendra ferðamanna. Margir þeirra millilenda aðeins en kynna sér bæklinga í flugvélum um hreinleika Íslands og um hið ferska neysluvatn Íslendinga og veit ég dæmi um vonbrigði þessara sömu ferðamanna þegar hafa ætlað að bragða á hinu hreina og góða vatni Íslendinga í flugstöðinni og fundu þá klórbragð. Þetta á með öðrum orðum, tel ég, herra forseti, ekki við á Íslandi.

Nú háttar svo til að fyrir dyrum stendur að leggja nýja vatnslögn yfir í Sandgerði um Miðnesheiði skammt frá flugstöðinni og ég tel að þar sé ágætt lag að taka örlítinn afleggjara af þeirri meginlögn yfir í flugstöðina en til þess þarf að sjálfsögðu leyfi varnarliðsins. Ég tel að einhver þurfi að taka frumkvæði í þessu máli, þ.e. leiða saman annars vegar Hitaveitu Suðurnesja og varnarliðið. Það er eðlilegt að utanrrn. taki það frumkvæði því að heimild þarf að fást frá varnarliðinu.

Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann hyggist taka frumkvæði og beita sér í þessu máli.