Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:22:00 (4772)

2000-02-23 15:22:00# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Utanrrn. hefur skoðað möguleikann á því að veita fersku vatni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðan síðla á síðasta ári. Ástæða þess að klórblandað vatn rennur til flugstöðvarinnar er sú, eins og kom fram í þessari fyrirspurn, að vatninu er dælt þangað frá dælustöð varnarliðsins þar sem klórblöndunin og önnur íblöndun fer fram. Á þeim tíma sem flugstöðin ver reist réð engin önnur vatnsveita við þetta verkefni en vatnsveita varnarliðsins.

Athugun ráðuneytisins nú hefur leitt í ljós að það þarf að leggja lögn milli aðalæðar Vatnsveitu Suðurnesja og aðalæðarinnar að flugstöðinni og reisa nýja dælustöð til að veita fersku vatni í flugstöðina. Ekkert hindrar að svo verði gert annað en það að ljóst er að slík framkvæmd mun kosta umtalsverðar fjárhæðir og það sýna frumathuganir að kostnaður gæti verið á bilinu 20--30 milljónir. Það er hins vegar eindreginn vilji til þess að flugstöðin og reyndar önnur íslensk atvinnustarfsemi á þessu svæði njóti aðgangs að fersku vatni og má þar einnig nefna byggingar Flugleiða og önnur mannvirki sem kunna að rísa á þessu svæði. M.a. af þeim ástæðum og að því er varðar flugstöðina þá leitar nú utanrrn. viðunandi lausnar á þessu máli. En það er ekkert sem hindrar að það verði gert því ástæðan hefur fyrst og fremst verið sú að engin önnur vatnsveita réð við þetta verkefni.

Rétt er að geta þess að á sínum tíma þegar vatnsveitan var reist tók varnarliðið á Keflavíkurflugvelli mikinn þátt í kostnaði við þá mannvirkjagerð. Flugstöðin greiðir vatnsskatt nú til þeirrar vatnsveitu, sem ekki er mjög mikill. Flugstöðin mundi annars greiða vatnsskatt til þeirrar vatnsveitu sem hún fengi vatnið frá. En það er ekkert í samstarfi okkar við varnarliðið sem hindrar að við getum gert slíka samninga við nýjan aðila. Að því stefnum við og erum þegar byrjaðir á.