Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:27:53 (4775)

2000-02-23 15:27:53# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. svörin og lýsa sérstakri ánægju með þann vilja og frumkvæði sem ráðuneyti hans tekur í þessu máli. En ég tel ástæðu til að taka það fram að ég tel að samskipti um rekstur þessarar ágætu byggingar hafi hvað varðar íslensk stjórnvöld og varnarliðið verið ágæt. Hér er til umræðu einn þáttur sem þó má segja að agnúi sé á og hér hefur komið fram í svari hæstv. ráðherra að unnið er að því að leysa þennan vanda.

En varðandi það hvort Íslendingar eigi að taka almennt við rekstri flugstöðvarinnar og þá flugbrautanna er rétt að draga það fram að af því hlýst verulegur kostnaður. Ætli við séum þá ekki að ræða um svona u.þ.b. einn milljarð kr. sem rynni úr ríkissjóði og á ég þá sérstaklega við rekstur brautanna.

Það er líka vert að draga athyglina að því að mikill vöxtur er í kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar bæði á vegum Flugleiða og annarra fyrirtækja, Suðurflugs og annarra. Farþegafjöldi fer vaxandi. Vöruflutningar fara vaxandi. Það virðast vera nýjar byggingar að spretta þar upp og þess vegna er mjög mikilvægt að vatnsmál komist í lag þannig að bæði starfsfólk þar og ekki síður ferðamenn sem þurfa að hafa mjög jákvæða og góða ímynd af landinu fái að njóta þar þess drykkjarvatns sem við erum svo stolt af.

Nú er lag að gera þetta þar sem verið er að leggja nýja vatnslögn yfir í Sandgerði. En e.t.v. er einhver önnur tæknileg leið er betri. Aðalatriðið er að taka frumkvæði í þessu máli. Það hefur komið fram í svari hæstv. utanrrh. að ráðuneyti hans mun gera það og því fagna ég.