Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:29:54 (4776)

2000-02-23 15:29:54# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að heppilegast af öllu væri að hætta að blanda klór í þetta vatn. Það er jafnframt blandað flúor í vatnið sem er mjög mikilvægt og er víða gert í heiminum vegna m.a. tannskemmda. En það er allt annað mál. Það er algjör óþarfi að blanda klór í þetta vatn. Ég minnist þess þegar stöð var á Stokksnesi fyrir austan að þá voru menn líka með vatnsveitu og þar var blandað klór í vatnið. En ég veit ekki betur en að menn hafi gleymt því eina nóttina og síðan hafi enginn kvartað undan því en allir verið glaðir.

Ég held að það væri í sjálfu sér besta lausnin á þessu máli að menn gleymdu að setja klór í. En það er ekki undir okkur komið því varnarliðið tók mikinn þátt í þessari vatnsveitu á sínum tíma og greiddi mjög mikinn hluta stofnkostnaðarins þannig að þeir eru að sjálfsögðu í sínum fulla rétti. Ég tel að það mannvirki sé til fyrirmyndar eins og mörg önnur mannvirki sem reist hafa verið í samvinnu Íslendinga sem búa þarna á svæðinu og varnarliðsins. Það á einnig við um ýmis önnur mál sem ég ætla ekki að telja hér upp.

Að því er varðar forræði í flugstöðinni þá er það allt annað mál. Það er fest í varnarsamninginn. Það er mjög mikilvægt að stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli sé á einni hendi. Á það hefur verið lögð áhersla í gegnum tíðina. Hvort svo eigi að vera um alla framtíð ætla ég ekkert að fullyrða um. Það má setja fram ýmsar skoðanir í þeim efnum. Svona er það og ég get hvorki lofað né gefið nokkur fyrirheit um neinar breytingar þar á á næstunni.