Aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:32:23 (4777)

2000-02-23 15:32:23# 125. lþ. 70.5 fundur 342. mál: #A aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Fyrr í þessum mánuði sendu mannréttindasamtökin Human Rights Watch frá sér skýrslu um afleiðingar loftárása NATO á Júgóslavíu. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að um 500 óbreyttir borgarar féllu í loftárásunum, að mannfall varð í um 90 tilvikum en bandarísk hermálayfirvöld höfðu haldið fram að manntjón á óbreyttum borgurum hefði aðeins orðið í 20 til 30 tilvikum. Níu sinnum var framið brot á alþjóðalögum og alþjóðlegum mannúðarrétti að mati samtakanna þegar árásir voru gerðar á borgaraleg skotmörk eða skotmörk sem með engum hætti geta talist hernaðarleg eins og hitaveita, útvarpsstöð, brýr sem ekki höfðu hernaðarlegt gildi o.s.frv. Upplýst er að um 150 óbreyttir borgarar hafi fallið fyrir svonefndum klasasprengjum.

Herra forseti. Þessar upplýsingar úr skýrslu samtakanna, auk þeirra deilna sem staðið hafa á alþjóðavettvangi um lögmæti aðgerðanna sem slíkra, að viðbættum þeim upplýsingum og þeim blekkingum í raun og veru sem ljóst er að beitt var í aðdraganda loftárásanna til að afla þeim fylgis og það hvernig vestrænir fjölmiðlar voru mataðir og létu mata sig á röngum upplýsingum, allt þetta og margt fleira kallar á það að alþjóðasamfélagið geri upp við þessa atburði, að reynt verði að grafast fyrir um það hvað gerðist þarna raunverulega og hver ber ábyrgð á hverjum þætti málsins fyrir sig.

Og það er áskorun samtakanna til Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess þar sem farið er fram á ýmsar aðgerðir af hálfu ríkjanna og undir þá áskorun hefur verið tekið af fjölmörgum fleiri aðilum. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.:

,,Hver er afstaða ráðherra til áskorunar mannréttindasamtakanna Human Rights Watch á NATO og aðildarríki bandalagsins þar sem m.a. er farið fram á eftirfarandi:

a. sett verði á fót óháð og alþjóðleg rannsóknanefnd til að rannsaka þau tilfelli þar sem loftárásir NATO hafi brotið í bága við alþjóðlegan mannúðarrétt,

b. gerð verði óhlutdræg og sjálfstæð rannsókn á afleiðingum loftárásanna í níu tilvikum eða fleiri þar sem samtökin telja að um ólögmætar aðgerðir hafi verið að ræða,

c. gerð verði úttekt á því hvernig sálfræðilegur hernaður sem felst í að áreita óbreytta borgara með loftárásum, fari saman við alþjóðlegan mannúðarrétt,

d. upplýst verði um öll þau tilvik þar sem óbreyttir borgarar féllu af völdum loftárása NATO,

e. aflétt verði leynd af öllum skýrslum sem gætu upplýst hvers konar vopn voru notuð í hverri árás um sig?``

Hér er einkum átt við upplýsingar sem snúa að notkun klasasprengja og notkun sprengjuodda með sneyddu úrani.

Þetta eru aðeins, herra forseti, fimm af níu áskorunum samtakanna til stjórnvalda og ég leyfi mér að lýsa eftir afstöðu utanrrh. Íslands í þessu sambandi.