Aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:35:40 (4778)

2000-02-23 15:35:40# 125. lþ. 70.5 fundur 342. mál: #A aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp í þessu sambandi hvers vegna Atlantshafsbandalagið ákvað á sínum tíma að hefja aðgerðir gegn Sambandslýðveldinu Júgóslavíu. Það var í nafni mannúðar og mannréttinda. Og einungis Atlantshagsbandalagið hafði getu til að stöðva hinar skelfilegu þjóðernishreinsanir í Kosovo.

Mér er vel kunnugt um skýrslu Human Rights Watch sem er innlegg í þessa umræðu um hinar skelfilegu afleiðingar af stefnu Milosevic í Kosovo. En ég vil jafnframt vekja athygli á öðrum skýrslum vegna þess að hv. þm. sagði að nauðsynlegt væri að gera þessa atburði upp og þá hljóta menn að líta til annarra átta jafnframt, skýrslur sem hafa hlotið einróma lof fyrir vandvirkni svo sem skýrsla ÖSE þar sem farið er ofan í víðtæk og skipuleg mannréttindabrot júgóslavneskrar lögreglu og hersveita í Kosovo áður en Atlantshafsbandalagið greip í taumana. Hv. fyrirspyrjandi virðist líta fram hjá slíkum skýrslum.

Ég vil líka vekja athygli á því að í efni skýrslu Human Rights Watch er annað efni sem hv. þm. getur einskis um. Það er t.d. ekkert minnst á tillögur samtakanna í máli hans þar sem Atlantshafsbandalagið þótti hafa staðið vel að verki, eins og breytingar á tilhögun loftárása, upplýsingamiðlun um skipulag aðgerða og endurskoðun aðferða við val á sprengjutegundum og skotmörkum.

Varðandi spurningarnar þá vil ég segja að því er snýr að liðum a og b:

Bandalagið hefur reynt að forðast það til hins ýtrasta að stefna lífi og eigum óbreyttra borgara í hættu og fara í einu og öllu að alþjóðlegum mannúðarlögum. Höfundar þessarar skýrslu komast að þeirri niðurstöðu að í meginatriðum hafi bandalagið ekki brotið gegn alþjóðlegum mannúðarlögum. Atlantshafsbandalagið tekur allar ásakanir um brot gegn mannúðarlögum mjög alvarlega. Af þeirri ástæðu hafa fulltrúar þess átt fundi með fulltrúum óháðra félagasamtaka svo sem Amnesty International til að taka við og svara slíkum ásökunum.

Fyrirspyrjandi spyr um afstöðu mína til stofnunar óháðrar alþjóðlegrar rannsóknarnefndar. Ég hef tilhneigingu til að treysta best hinum alþjóðlega stríðsglæpadómstóli sem stofnaður hefur verið í Haag til að fara ofan í málefni Sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Dómstóllinn tekur á málefnum einstaklinga sem grunaðir eru um stríðsglæpi af ýmsu tagi. Hann er þegar að vinna í kærum sem honum hafa borist vegna loftárása bandalagsins og mér er kunnugt um að aðalsaksóknarinn, Carla del Ponte, hefur átt í viðræðum við fastaráð bandalagsins og sett fram ákveðnar fyrirspurnir. Enn sem komið er hefur hins vegar ekkert komið fram sem bendir til þess að tilefni sé til ákæru á hendur einstaklingum sem ábyrgð báru á framkvæmd loftárásanna. Stríðsglæpadómstóllinn nýtur virðingar og trausts á alþjóðlegum vettvangi fyrir óhlutdræg og sjálfstæð vinnubrögð og vandséð er að óháðar og alþjóðlegar rannsóknarnefndir, svo notuð séu orð fyrirspyrjanda, geti unnið betra verk.

Mér er líka kunnugt um að á fundi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hafi verið tekið fram við aðalsaksóknara dómstólsins að þeir litu ekki svo á að bandalagið væri á nokkurn hátt hafið yfir lög og rétt og mundu þeir vinna með dómstólnum í góðri trú.

Að því er varðar lið c þá gætir nokkurs misskilnings hjá fyrirspyrjanda. Sálfræðilegur hernaður felst ekki í því að gerðar séu loftárásir á óbreytta borgara heldur í útbreiðslu áróðurs og leiðandi upplýsinga til ríkisborgara, þar á meðal hermanna í því ríki sem tekist er á við til að breyta hugarfari og draga úr mótstöðu. Bandalagið rak virka upplýsingastefnu á meðan á aðgerðunum stóð en beitti ekki sálfræðilegum hernaði. Þvert á móti voru fjölmiðlum í hvívetna veittar sem gleggstar upplýsingar meðan á aðgerðunum stóð. Eins og þegar hefur komið fram beindust loftárásirnar sjálfar ekki gegn óbreyttum borgurum heldur mannvirkjum sem þýðingu höfðu fyrir styrjaldarrekstur Serba og herlið Serba.

Að því er varðar lið d þá er því miður ekki hægt að veita slíkar upplýsingar og er ógerlegt að segja til um fjölda fallinna. Engum áreiðanlegum heimildarmönnum var til að dreifa í Kosovo áður en KFOR kom fyrst til sögunnar og enn er ekki hægt að útvega óháðar hlutlægar upplýsingar um mannfall sérstaklega í Serbíu. Þetta sjónarhorn endurspeglast meðal annars í umræddri skýrslu. Vonandi auðveldar hún almenningi að skilja hinar hörmulegu afleiðingar þjóðernishreinsana Milosevic forseta þrátt fyrir að skýrsla ÖSE, sem vitnað var til áðan, veiti enn betri innsýn í það efni.

Herra forseti. Ég mun reyna að svara síðari hluta fsp. í seinni ræðu minni.