Aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:43:29 (4780)

2000-02-23 15:43:29# 125. lþ. 70.5 fundur 342. mál: #A aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla að vitna í ÖSE-skýrsluna þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að serbneskar hersveitir hafi miskunnarlaust notað óbreytta borgara sem mannlega skildi við hernaðarleg skotmörk og þannig beinlínis stuðlað að því að óbreyttir borgarar týndu lífi. Skýrsla eftirlitsmanna Human Rights Watch flettir á hinn bóginn ágætlega ofan af blekkingum og áróðri serbneskra stjórnvalda sem hafa haldið því fram að fimm þúsund mann hafi fallið í valinn vegna aðgerða bandalagsins.

Að þessu leyti staðfestir skýrslan vitnisburð Atlantshafsbandalagsins sem talið hefur að árásirnar hafi kostað mun færri einstaklinga lífið.

[15:45]

Auðvitað liggur alveg ljóst fyrir að þessar árásir kostuðu marga einstaklinga lífið, því miður, þótt ég hafi ekki upplýsingar um hversu margir þeir hafi verið. Hv. þm. sagði að mun færri hafi verið teknir af lífi af Serbum og nefnir töluna 3--4 þúsund. Ég hef engar staðfestingar um það en ég hef heyrt tölur um að á bilinu 11--13 þúsund manns sé saknað. Talið er að á milli eitt og tvö þúsund Kosovo-Albanar séu enn þá í fangelsum í Serbíu og það er alveg ljóst að miklu meira mannfall hefur orðið Kosvo-megin og þar er um hrein morð og stríðsglæpi að ræða. Ég hafna því að reynt sé að leggja þetta að jöfnu. Ég bið hv. þm. að setja sig betur inn í þá stríðsglæpi sem þarna hafa átt sér stað af hálfu ríkisstjórnar Milosevic því þeir eru upphafið að þessu öllu saman. Það er aðalatriðið. Það er ekki hægt ávallt að vera með ásakanir í garð þeirra sem skökkuðu þennan leik.