Fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:48:41 (4782)

2000-02-23 15:48:41# 125. lþ. 70.6 fundur 269. mál: #A fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn hefur legið mjög lengi margra hluta vegna.

Í fyrsta lagi vil ég segja að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að innan heilbrigðisþjónustunnar verði skilið á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda þjónustu annars vegar og veitanda hennar hins vegar í því skyni að auka ráðdeild. Heilbr.- og trmrh. kynnti í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar 18. desember 1995 slíkar hugmyndir. Í framhaldi af því var lögð fram tillaga um lagabreytingar í tengslum við fjárlagaafgreiðslu vegna ársins 1996, eins og hv. þingmenn muna kannski, þar sem lagt var til að samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og framkvæmdastjórnir sjúkrahúsanna fengju það hlutverk að koma á fót vísi að slíkum aðskilnaði kaupanda og seljanda hvað varðar Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítala.

Þessar breytingar náðu ekki fram að ganga. Frá þessum tíma hafa forsendur breyst verulega með tilkomu sameiginlegs forstjóra fyrir bæði stóru sjúkrahúsin í Reykjavík.

Hvað varðar kaup og sölu á heilbrigðisþjónustu hafa á undanförnum árum átt sér stað miklar umræður. Eitt af því sem talið er mikilvægast er að tryggja að kaupandi þjónustunnar hafi svipaða og helst jafna þekkingu á þeirri þjónustu sem hann kaupir og veitandinn. Í fræðiritum er stundum talað um vanda hins óupplýsta þriðja aðila í þessu sambandi.

Þessu hefur verið mætt með ýmsum hætti. Einna athyglisverðust er sú aðgerð sem Bretar beita og hafa þróað í rúman áratug. Þar eru peningar veittir til heilsugæsluumdæma eftir íbúafjölda, aldurssamsetningu íbúa og fleiri atriði eru tekin þar inn í. Umdæmin kaupa síðan alla þjónustu fyrir íbúa viðkomandi svæðis. Á Norðurlöndum hafa einnig farið fram margs konar tilraunir á þessu sviði undanfarin ár.

Árangur þessara tilrauna hefur verið mismunandi. Flestir sem hafa reynslu af slíkum athugunum virðast þó sammála um að hér sé um að ræða leið sem skynsamlegt sé að kanna og geti, ef vel tekst til, skilað umtalsverðum árangri.

Hér á landi hefur þetta fyrirkomulag með heilsugæslu sem kaupanda ítrekað verið rætt, m.a. í tengslum við uppbyggingu og sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem þá fengju fjárveitingar til að kaupa heilbrigðisþjónustu, m.a. af stóru sjúkrahúsunum. Eins og fyrr er getið koma fleiri leiðir til greina og full ástæða er til þess að kanna slíka möguleika til hlítar.

Til þess að kaup heilbrigðisþjónustunnar geri hana mögulega þarf að skilgreina þá þjónustu sem veitt er með einföldum mælingum og hugtökum. Heilbr. og trmrn. hefur þegar hafið notkun á svokölluðu RAI-kerfi sem stendur fyrir raunverulegan aðbúnað íbúa. Þetta er mælikerfi fyrir hjúkrunarstofnanir. Notkun þess kerfis var ein af forsendum þess að hægt var að bjóða út rekstur hjúkrunarheimilis. Þá hefur verið fylgst með þróun erlendis á mælikerfum fyrir bráðastofnanir samkvæmt DRG-kerfi sem hv. þm. minntist hér á og hefur ráðuneytið tekið þátt í norrænu samstarfi þar um.

Til að stuðla að jafnri skiptingu og betri nýtingu fjármuna hefur heilbr.- og trmrn. ákveðið að láta smíða reiknilíkön fyrir rekstur heilbrigðisstofnana.

Markmiðið með smíði reiknilíkana er að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til reksturs og þjónustu, þjóna heilbrrn. sem hjálpartæki við að skipta fjárveitingu skipulega milli stofnana á grundvelli samræmdra forsendna og í samræmi við áherslur um þjónustustig. Einingakostnaður stofnana verði samræmdur frá því sem nú er að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna og metið verður hvernig takmarkaðar heildarfjárveitingar nýtast best. Stefnt er að því að unnt verði að nýta reiknilíkön að einhverju leyti við fjárlagagerð árið 2001.

Nú er ljósið farið að blikka á mig. En það er hægt að ræða um þetta miklu nánar. Mig langar að segja frá því svona í blárestina að núna á stóru sjúkrahúsunum er einmitt að verið er að stuðla að nútímalegra formi hvað varðar kaup og sölu á þjónustu. En til þess að svo megi verða þá þarf kostnaðargreiningin að vera ljós. Menn eru búnir að vinna að henni undanfarin þrjú ár og eru nú loksins komnir langt með þá greiningu.