Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:07:11 (4789)

2000-02-23 16:07:11# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hvernig hv. heilbrrh. lagði þetta mál upp. Þegar það tilboð sem hér er verið að ræða um er skoðað grannt má sjá að Hrafnistu var í fyrsta lagi ekki gert kleift að taka þátt í útboðinu vegna þess að talið var að við værum ekki á sama plani og fyrirtæki á hinum frjálsa vinnumarkaði. Við máttum t.d. ekki nota hagkvæmnisrekstur stóreldhúss.

Í annan stað, varðandi daggjöld, var horfið frá því að taka tilboðunum frá þessum tveimur aðilum yfir í það sem gengið er frá núna í samningum. Ráðherra hafði orð á því í blaðaviðtali að þetta væru allt of dýr tilboð. En hvað gerist? Þarna var 60 rúma hjúkrunarálma. Hún er stækkuð upp í 90 rúm sem þýðir hagkvæmari rekstur og daggjaldamunur er 300 kr. á dag. Þar með er verið að tala um nákvæmlega sömu upphæð og þegar ráðuneytið hafnaði 60 rúma hjúkrunarálmunni. Í staðinn er samið um 90 rúma hjúkrunarálmu, bætt við 30 rúmum, og (Forseti hringir.) lækkað um 300 kr. 30 rúmum er bætt við þannig að þarna verða alls 90 rúm. Hér eru bara margar staðreyndir ekki sannar sem fullyrt er af hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Það væri vissulega full ástæða til að fara alvarlega ofan í saumana á þessu máli, sérstaklega vegna þess að ábyggilega munu koma upp (Forseti hringir.) margar og miklar kröfur frá öðrum hjúkrunarheimilum sem hafa í gegnum árin tekið við öldruðum (Forseti hringir.) sjúklingum af spítölunum.