Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:12:08 (4792)

2000-02-23 16:12:08# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Auðvitað hafa mörg hjúkrunarheimili mjög þunga sjúklinga. Þarna erum við að tala um sjúklinga sem eru alveg á mörkum þess að þurfa að vera á sjúkrahúsi.

En mig langar að segja við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson að ég kann því illa þegar hann segir hér úr ræðustól að ég bókstaflega skrökvi. En það sagði hv. þm. hér áðan. Þá var hann að tala um útboðsmálin. Ég man ekki betur --- og nú ætla ég ekki að segja meira en svo --- en ég hafi fengið bréf frá hv. þm., undirritað af honum, þar sem hann taldi að þetta væru eðlilegar kröfulýsingar varðandi útboðið. Hann leiðréttir mig ef það er ekki rétt. Mér finnst það því einkennilegt ef að hann hefur algjörlega skipt um skoðun hvað þetta mál varðar.

Auðvitað er eðlilegt, þegar farið er út í nýjungar eins og þær sem við erum núna að prófa, að skiptar skoðanir séu um þær. En ég tel að eðlilega hafi verið staðið að þessu máli, eðlilega gengið frá því á allan hátt og að við séum með þessu að bæta þjónustu við aldraða hratt og örugglega.

Ég endurtek að mér finnst leitt ef ég er vænd um að hafa skrökvað þar sem ég tel mig hafa bréf, undirritað af hv. þm., um þetta efni.