Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:13:41 (4793)

2000-02-23 16:13:41# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er einhver misskilningur hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að ég hafi vænt hana um ósannsögli. Ég sagði aðeins það sem satt er. Í fyrsta lagi að þegar útboðið kom frá þeim, sem ætlar að byggja 90 rúma hjúkrunarálmu í Sóltúni, þá var miðað við 60 rúma hjúkrunarálmu. Þá var tilboð þessara aðila upp á 14.700 kr. tæpar ef ég man rétt. Þar munar ekki mörgum krónum. Ég sagði hins vegar að hæstv. heilbrrh. hafi látið hafa það eftir sér í viðtali að tilboðið væri óaðgengilegt vegna þess að það mundi kosta ríkið mikla fjármuni með tilliti til annarra hjúkrunarheimila sem eru að fá 8.000 kr. á dag. En að hverju er svo gengið? Það er gengið til samninga við þennan viðkomandi aðila upp á 14.300 kr. Hvað hafði þá gerst? Þá hafði rúmum verið fjölgað á þessu hjúkrunarheimili, úr 60 í 90. Samkvæmt því, vegna hagkvæmni rekstrarins eða rekstrareiningarinnar úr 60 rúmum í 90 rúm, erum við nánast að tala um sömu tölur.

[16:15]

Það er líka athyglisvert að heyra hæstv. ráðherra segja að hér sé sérstakt hjúkrunarheimili fyrir aldraða því að það ætli að taka þá öldruðu sem hafa legið á spítölum svo og svo lengi og eru sérstaklega þungir samkvæmt RAI-mælingum. Ég bendi á að Grund hefur t.d. tekið núna á síðasta ári, þ.e. á árinu 1999, a.m.k. 60 aðila frá spítölunum. (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. fékk orðið til að bera af sér sakir en nú þykir forseta hann vera kominn örlítið út fyrir efnið.)

Virðulegi forseti. Ég sný mér þá aftur að þeim sökum sem ég er borinn, þ.e. að ég hafi borið hæstv. heilbrrh. ósannsögli á brýn. Ég mótmæli því harðlega. Ég mótmæli því og tel mig ekki hafa gert það í ljósi þessara tölulegu staðreynda sem ég nefndi.